Laugardagur 19.02.2011 - 23:12 - FB ummæli ()

Hver er hugsjón Alþingismanna

Núverandi vinstri ríkisstjórn dælir peningum inn í fallna banka og sparisjóði eins og fyrri ríkisstjórn. Það er vitað að megnið af peningunum okkar hefur farið í að bæta upp tap þeirra sem áttu 5 milljónir eða meira á sínum bankabókum. Það eru svokallaðir stóreignamenn sem vinstri menn hafa háð harðvítuga baráttu við áratugum saman. Síðan vill núverandi vinstri ríkisstjórn ólm borga Icesave sem okkur ber engin skylda til að greiða. Það er mjög sérkennilegt að fyrsta hreina tæra vinstri ríkisstjórn Íslands leggur sig í framakróka við að lagfæra hrunið fjármálakerfi nýfrjálshyggjunnar. Fyrrnefndir vinstri menn hafa talið nýfrjálshyggjuna rót hins illa og forsenda misskiptingar og fátæktar í heiminum.

Ekki skrítið að hinir vinstri mennirnir séu svolítið áttaviltir. Hvers vegna er ekki ráðist að rótum meinsins?

Frjálshyggjumenn innan raða Sjálfstæðisflokksins sem telja það helgispjöll að ríkið púkki upp á einkafyrirtæki sem fara á hausinn eru líka ráðvilltir í dag. ESB andstæðingar innan Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, sem töldu sig óhulta þar, vita ekki í dag hvaðan á sig stendur veðrið.

Kjósendur töldu sig vera að kjósa stefnur, hugsjónir eða málefni.

Núverandi ríkisstjórn er ekki stjórn sem styðst við pólitíska stefnu því hún hefur svikið flest allar pólitískar stefnur sem þjóðin hefur tileinkað sér á liðnum áratugum. Ríkisstjórnin mokar peningum í banka, gefur bönkum og fjármálafyrirtækjum óheft veiðileyfi á skulduga einstaklinga og fyrirtæki þannig að ævistarf fólks eru rjúkandi rústir. Fyrir utan það að vera taglhnýtingur umboðsmanns alþjóðafjármagnsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, virðist eina stefna ríkisstjórnarinnar vera að koma okkur inn í Evrópusambandið sem eru umbúðir utan um ofurríka valdastétt Evrópu og hagsmuni þeirra.

Síðan eigum við að treysta á dómgreind þingmanna sem hafa kastað hugsjónum og kosningaloforðum sínum út í hafsauga. Aðdáendur þeirra eru fullir vandlætingar vegna efasemda okkar um ágæti einstaklinga sem virðast geta sagt eitt í dag og eitthvað allt annað á morgun.

Ástandið er svo grafalvarlegt að með núverandi stefnu er varla hægt að forða landinu frá gjaldþroti. Þegar Icesave hefur verið samþykkt erum við í frjálsu falli í gin lánadrottna okkar. Einurð núverandi valdhafa nálgast sturlun sem er ekki auðvelt að skýra nema með algjörri aftengingu við raunveruleikann. Því miður er sagan full af slíkum dæmum og einnig almenningi sem er haldið frá staðreyndum málsins. Því miður virðist sem Ísland þurfi að feta sig eftir sögu annarra þjóða í stað þess að læra af reynslu þeirra.

Úr því sem komið er þá verður bara svo að vera.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur