Laugardagur 05.03.2011 - 19:54 - FB ummæli ()

Íslensk heimalöguð evra að hætti Lilju Mós

Í beinni útsendingu frá nefndarfundi Alþingis með Má Guðmunssyni Seðlabankastjóra stakk Lilja Mósesdóttir upp á því að smíða nýja krónu og kalla hana evru. Ég verða að segja að ég tek hattinn ofan fyrir Lilju fyrir það að hún þori að bölva í kirkjunni. Lilja gerir sér lítið fyrir og skellir inn í umræðuna grundvallarspurningu sem enginn tók í raun afstöðu til.

Hvað er króna? evra? eða þá hvað eru peningar? Þarf maður ekki að skilja það ef maður ætlar að ræða smíði nýrrar krónu eða velta fyrir sér hagfræði?

Peningar eru miðill. Við flytjum vinnustundirnar okkar út í búð með peningum. Ef við greiddum með vinnustundum yrði það flókið fyrir kaupmanninn að koma þeim í verð hjá byrgjum. Þess vegna flytja peningar verðmæti frá einum stað til annars. Við gætum svo sem notað hvað sem er fyrir peninga. Við gætum notað prik sem við skærum í ákveðinn fjölda af raufum. Prikin hefðu mismargar raufar eftir því hvað tímakaupið væri. Því gæti sá sem fengi margar raufar í kaup keypt meira en hinir. Ástæðan fyrir því að við notum krónur en ekki prik eru vegna þess að löggjafinn hefur ákveðið að nota krónur sem peninga. Það sem gerir krónur að peningum eru lögin. Það sem gefur krónum gildi sitt eru þau verðmæti sem þær flytja, túlka eða miðla. Í tilfelli Íslands er það sú landsframleiðsla sem við öll sköpum og þurfum að deila með okkur. Þess vegna eru „prikin“ sem við notum sem miðil í raun verðlaus, verðmætin felast í framleiðslunni.

Þess vegna getur löggjafinn búið til nýja krónu. Það hefur verið gert áður. Þjóðverjar gerðu þetta eftir fyrri heimstyrjöldina, 1923. Þá hafði Seðalbanki Þýskalands, sem þá var undir stjórn einakaðila, prentað svo mikið af þýskum mörkum að það var orðið einskis virði. Þá tók ríkisstjórnin til sinna mála og bjó til Rentenmark til nota innanlands. Það var bannað að skipta Rentenmarkinu til útlendinga og þar með var lokað á spákaupmennsku með gjaldmiðil Þýskalands. Í kjölfarið myndaðist smá saman traust.

Þess vegna er Lilja að storka hefðbundnum sérhagsmunum, til að mæta henni með rökum verða menn að skilja grunnhugtök í hagfræði, eins og hvað eru peningar, og auk þess að kunna þokkaleg skil á sögu hagfræðinnar. Þeir sem hrista hausinn í forundran yfir tillögum hennar hafa takmarkaða þekkingu á báðum þessum þáttum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur