Föstudagur 11.03.2011 - 23:29 - FB ummæli ()

Catch 22

Almenningur er í vanda þegar kemur að því að ákveða sig hvort hann samþykkir eða hafnar Icesave 9. apríl n.k.. Skilaboð stjórnvalda eru að um viðráðanlega upphæð sé að ræða og það sé ekki áhættunnar virði að hafna samningum. Ástæður mínar fyrir að hafna Icesave eru eftirfarandi.

Ég samþykki ekki að greiða skuldir einkafyrirtækis með skattfé. Það á jafnmikið við um Icesave skuld Landsbankans sem og önnur einkafyrirtæki.

Ég samþykki ekki að Bretar og Hollendingar hafi komið í veg fyrir að við könnuðum lögmæti þess að vera krafin um að greiða Icesave.

Ég samþykki ekki að Bretar og Hollendingar hafi neytt íslensk stjórnvöld til að semja um Icesave.

Ég samþykki ekki að afkomendur okkar þurfi að greiða Icesave.

Ég tel að ef einhver samþykkir Icesave sé viðkomandi að sætta sig við fyrrnefnd atriði. Fyrrnefnd nýlenduveldi hafa barið okkur til hlýðni og af þeim sökum finnst mörgum vissara að þóknast þeim í þeirri von að barsmíðunum linni.

Það sem er sorglegast við Icesave er að niðurstða málsins skiptir ekki lengur neinu höfuðmáli um framtíð landsins. Það sem ákvarðar framtíð okkar er hvort hér verði einhver raunverulegur uppskurður á gamla Íslandi og meinin fjarlægð. Spillt sérhagsmunatengd valdastétt hugsar um eigin hag, klýfur þjóðina með ESB umsókn, og deilir bitlingum til sérhagsmunaaðila og fær fjármuni að launum. Það má leiða hagræn rök að því að kostnaðurinn við Icesave verði okkur þungur baggi og jafnvel setji landið á hausinn. Aftur á móti mun spillt valdastétt örugglega setja okkur á hausinn og því er afnám hennar mun mikilvægara en Icesave.

Því má segja að meðan þjóðin kýs bara um já eða nei við Icesave sé framhaldið svolítið catch 22.

Þess vegna má leiða sterk rök fyrir því að fyrir þá sem óska eftir raunverulegum breytingum á Íslandi, hinu nýja Íslandi, sé full þörf á öðru bankahruni. Í þetta sinn er nauðsynlegt að það verði nægjanlega öflugt þannig að sérhagsmunaaðilarnir lifi örugglega ekki af eins og haustið 2008.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur