Sunnudagur 17.04.2011 - 14:16 - FB ummæli ()

Eigum við að byggja brú

Það er mikið rætt stöðnun í þjóðfélaginu. Þá er aðallega átt við skort á atvinnu vegna skorts á verkefnum vegna skorts á lánsfé. Þar kemur umræðan um lánshæfismatið, ef það lækkar þá þarf ríkissjóður að greiða hærri vexti af lánum ef hann fær þá lán yfir höfuð. Þar sem ríkissjóður er svo stórskuldugur nú þegar telja margir, bæði matsfyrirtæki og einstaklingar að ekki sé hægt að bæta meiri skuldum á ríkissjóð.

Ef við könnum einstaka þætti þessarar jöfnu aðeins nánar. Það eru þrír þættir sem mynda jöfnuna. Í fyrsta lagi óleyst verkefni sem þarf að vinna, starfsmenn til að vinna verkið og að lokum peningar til að greiða laun og efniskostnað. Við getum verið sammála um það að enginn skortur er á óleystum verkefnum og margir eru atvinnulausir eða hafa flúið land þannig að nægjanlegt framboð er af vinnufúsum höndum. Það sem okkur skortir eru peningar. Ef peningar væru ekki til og við greiddum laun með vörum þá væri málið leyst. Einnig væri hægt að greiða laun með úttektarmiðum sem hið opinbera myndi gefa út. Þá gætu launamenn farið með miðana í Bónus og keypt sér í matinn. Síðan væri hægt að auka gildi úttektarmiðanna þannig að hægt væri að greiða skatta og útsvar með þeim.

Þar með væri íslenska ríkið að búa til peninga. Úttektarmiðarnir myndu virka sem peningar, úttektarmiðinn er mælikvarðinn á hversu mikla vinnu viðkomandi launamaður hefur innt af hendi. Úttektarmiðinn flytur síðan þau verðmæti sem felast í laununum, flytur þau út í búð þar sem verðmætin í vinnuframlaginu umbreytist í mjólk. Ef einhver heldur að um nýjung sé að ræða þá hefur slíkt verið gert áður. Í raun gerist þetta á hverjum einasta degi mörgum sinnum á dag þegar fólk notar peninga. Peningar eru í raun bara úttektarmiðar, eining á verðmæti, miðill til að flytja verðmæti frá einum stað til annars.

Úttektarmiða eða peninga er hægt að búa til án kostnaðar. Ef ríkið býr til peninga og byggir brú eða virkjun þá er jafnan okkar í raun leyst. Þeir sem selja efni í brúnna og þeir sem selja vinnu sína fá greitt fyrir sín verðmæti með peningum sem ríkið býr til. Viðkomandi aðilar fara síðan með peningana um allt þjóðfélagið og skapa tekjur fyrir aðra. Þar sem raunveruleg verðmæti eru sköpuð með þessum peningun verður ekki verðbólga.

Á þennan hátt gætum við leyst þá stöðunun sem ríkir. Vandamálið er skortur á peningum til að flytja verðmæti frá einum stað til annars. Verðmætin, efni í brú eða vinnulaun, eru nú þegar til staðar. Ef okkur tækist að leysa vandamál okkar á þennan hátt er þá nokkuð rangt við það að gera smá tilraun?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur