Þriðjudagur 19.04.2011 - 21:46 - FB ummæli ()

Hvers vegna eru bankarnir skrímsli

Bubbi skrifar grein á Pressuna í dag sem heitir „Stóru bankarnir eru skrímsli“. Þar rekur hann staðreyndir um banka sem hluti þjóðarinnar fær að kenna á . Hinn hlutinn lítur undan frekar en að reyna að skilja. Að lokum spyr Bubbi grundvallarspurningarinnar „Hvernig getum við almenningur knúið bankana til að þjónusta okkur af heiðarleika og sanngirni…? Spyr sá sem ekki veit?

Ef við umorðum spurninguna og spyrjum hvers vegna hafa bankar öll völd í heiminum. Hvers vegna stjórna bankar viðbrögðum Obama eða ESB gagnvart skuldugum ríkjum eins og Írlandi og Grikklandi. Einfalda svarið er að allir skulda bönkunum peninga og maður á að sjálfsögðu að borga skuldir sínar..alltaf.

Ef við tækjum peningana í burtu og allir væru að stunda vöruskipti þá væri engin kreppa í dag. Auk þess væru bankar valdalausir því þeir væru ekki til. Þess vegna snýst kreppan um peninga og banka en ekki okkur hin því við kæmumst af án þeirra ef út í það væri farið.

Fyrir hrun bjuggu bankarnir til mikið af peningum, það kallaðist að auðvelt væri að fá lán. Eftir hrun eru lán innheimt og ekki ný lán gefin út og þess vegna hrundi allt og það var kallað að lánalínur hefðu lokast. Afleiðingin er að mjög lítið er af peningum í umferð. Einnig er niðurstaðan sú að peningar eru bara búnir til sem skuld eða lán af bönkum. Þrátt fyrir þessa breytingar á magni peninga í umferð er Bubbi enn að syngja og skapar þannig verðmæti, ég er enn að svæfa fólk á Landspítalanum og skapa þannig verðmæti. Það sem breyttist er að ég og Bubbi eigum erfitt með að skiptast á verðmætum sökum skorts á peningum. Ef ég og Bubbi ættum bara að stunda vöruskipti á milli okkar þá yrði Bubbi fljótt leiður á því að láta svæfa sig í hvert skipti og hann væri búinn að syngja fyrir mig eitt lag.

Bankar búa til peninga, stjórna magni þeirra og ákveða því þannig örlög okkar. Þar sem bankar eru sjálfstæðir hefur almenningur enga aðkomu að ákvörðunum þeirra. Ef opinber aðili með 100% gagnsæi skapaði og stjórnaði magni peninga í umferð hefði valdið færst frá bönkunum til okkar. Eftir sem áður væru bankar starfandi en vald þeirra væri þá í réttu hlutfalli við þjónustulund þeirra gagnvart okkur almenningi, því við hefðum valdið til að búa til peningana.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur