Miðvikudagur 20.04.2011 - 22:46 - FB ummæli ()

Karíus og Baktus

Það rekst allt á hvurs annars horn í tilverunni þessa dagana. Kvótaauðvaldið skellti sér ofan á samninga aðila um kaup og kjör á Íslandi. Við viljum fransbrauð sögðu þeir félagarnir um árið en fengu tannbursta í staðinn. Kvótaauðvaldið er hlynnt frelsi til athafna sem afmarkast af fríu fransbrauði og banni á tannburstum. Ríkisstjórnin hefur óbeint gagn af þessu brölti kvótaauðvaldsins því á meðan er ekki samið um hækkun launa. Már Seðlabankastjóri sagði líka í dag að hækkun launa myndi setja efnahagsþróun á Íslandi í voða. Þess vegna er það bara fínt finnst elítunni að kvótaauðvaldið stöðvi samninga.

Það er eins og tilveran snúist bara um að hámarka getu hins opinbera til að dæla peningum inn í bankana eða að borga skuldir sem eru til komnar vegna þeirra. Samtímis má ekki lækka greiðslur almennings af lánum sínum til bankanna vegna þess hvað þeir standa tæpt. Almenningur á að borga eins mikið og hann getur. Allt eru þetta kunnulegar staðreyndir.

Síðan erum við í Frjálslynda flokknum að hvetja til þess að við veiðum meiri fisk. Sjávarútvegur er okkar fag, Íslendinga, og við vitum að ef við veiðum meiri fisk þá fáum við auknar tekjur öllum til hagsbóta. Þrátt fyrir það má það ekki eins vitlaust og það hljómar. Þau trúarbrögð sem stjórnvöld hafa aðhyllst hafa skilað okkur sífellt minni afla, hljómar ekki trúverðugt eða hvað?

Allir landsmenn vita að hægt er að afnema verðtrygginguna á stundinni, það er svipuð ákvörðun og að hætta að drekka. Það gerir maður ekki smá saman, maður hættir og tekst síðan á við þynkuna og tremmann. Sama elítan sem þolir ekki slorlykt vill halda í verðtrygginguna sér og sínum til hagsbóta.

Það rekst allt á hvurs annars horn í tilverunni hjá okkur. Við megum ekki veiða fisk því þá gæti fiskurinn dáið. Við megum ekki afnema verðtrygginguna því þá gæti einhver tapað. Við megum ekki tala um þær 1000 fjölskyldur sem þurfa gefins mat því þá gæti glansmynd vinstri stjórnarinnar skaddast. Ríkisstjórnina má ekki missa völdin því þá gæti Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur til valda. Sá sem kyndir katlana hjá núverandi ríkisstjórn er Davíð Odsson eða réttara sagt hatrið á honum.

Samt sem áður veit almenningur nokkurn veginn hvað er til ráða. Bora og bursta. Það er augljóst að fjórflokkurinn hefur fengið næg tækifæri til að stjórna þessu landi. Við, almenningur, sem erum valdið, þurfum að bursta þetta lið í burtu og fylla síðan í holurnar. Þeir aðilar sem vilja breytingar, þeir sem hafa aðra framtíðarsýn en að örfáir aðilar eigi fiskinn okkar, að almenningur borgi lán alla æfi öðrum til hagsbóta og að tekjur almennings og ríkissjóðs renni nánast óskiptar oní hirslur bankanna verða að sameinast og breyta. Við verðum sem þjóð að kynna okkur málin, lesa og fræðast, skilja samhengi hlutanna. Þá er ekki hægt að lesa eingöngu hefðbundna fréttamiðla því þar er mötun á ákveðinni heimsmynd. Ef fólk vill breytingar þá verður sú breyting að hefjast í huga viðkomandi, fólk  verður að leggja á sig vinnu við öflun á þekkingu en ekki að dotta fyrir framan fréttatíma RUV því þannig gerast bara ekki byltingar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur