Fimmtudagur 28.04.2011 - 23:22 - FB ummæli ()

Að eiga jeppa eða ekki

Þjáningar fátækra hafa náð eyrum landsmanna liðna daga. Mörgum finnst holur hljómur í svörum ráðamanna. Þeim er vorkunn því þeir ráða í raun litlu. Stefna AGS er stefna íslenskra ráðamanna og þeirri stefnu fylgir vaxandi fátækt. Haustið 2010 söfnuðust þúsundir landsmanna á Austurvöll og mótmæltu stefnu ríkisstjórnarinnar. Mótmælin beindust gegn stefnu hennar og AGS í málefnum skuldsettra einstaklinga. Í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til AGS skömmu fyrir mótmælin segist hún hafa lokið því sem fyrirhugað sé að gera fyrir skuldara og ekki verði gert meira fyrir þá. Annað gæti ógnað stöðuleika íslenska bankakerfisins. Í kjölfar mótmælanna var farið í sýndarvinnu sem lauk með því að íslenskar lánastofnanir sögðust ekki ætla að afskrifa skuldir. Ríkisstjórnin samþykkti þau málalok enda eru það bankastofnanir sem ráða.

Síðan þá hefur fátækum fjölgað og fleiri flutt úr landi. Fyrirtæki týna tölunni. Skuldir landsins aukast. Bankarnir blómstra enda er afgangurinn af atvinnulífinu, einstaklingum og stór hluti ríkissjóðs að fóðra bankana. Íslendingar segjast ekki vera óreiðumenn og borga að sjálfsögðu skuldir sínar jafnvel þó að hluti okkar verði eignalausir og fátækir.

Íslendingar framleiða fisk, ál, landbúnaðarvörur, þjónustu og ýmislegt annað.

Bankar framleiða peninga og hafa einkaleyfi á því. Þar sem peningar skipta nánast öllu máli í tilverunni fylgir þessu einkaleyfi mikil völd. Við sjáum líka að bæði hér heima og erlendis er enginn skortur hjá bönkum. Enn eru þeir í flottustu byggingunum og borga bónusa nú sem fyrr. Fyrir hrun lánuðu bankar mest til einkaaðila og þá fengu bankastjórar bónusa fyrir það. Eftir hrun hafa ríkissjóðir tekið við hlutverki lántakenda og fyrir það fá bankastjórar líka bónusa.

Það virðist sem afraksturinn af fiski, áli og öðru sem við framleiðum renni inn í bankakerfið.

Þess vegna ættum við öll að ræða um gildi skuldarinnar á tilveru okkar, hvað eru peningar og hver á að framleiða þá, við eða bankarnir.

Þar sem umræðan eftir mótmælin miklu haustið 2010 á Austurvelli snérist mest um það hvort að mótmælendur væru jeppaeigendur eða ekki náði umræðan aldrei dýpra en svo. Þökk sé mannvitsbrekkunum í samfélagi okkar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur