Sunnudagur 22.05.2011 - 20:04 - FB ummæli ()

Demókratíó, sólitaríó… ertu með

Lýðræði er augljóslega að þvælast fyrir þeim erfiðu og þungbæru ákvörðunum sem stjórnmálaelítan þarf að taka fyrir hönd bankaelítunnar um víða veröld. Það er einnig augljóst að mikil togstreita er á milli almennings sem vill hafa meiri völd og elítunnar sem vill stjórna öllu með fámennum fundum handvalinna.

Hugmyndin er að hafa valdið þrískipt, dómsvald, framkvæmdavald og löggjafarvald. Þar sem löggjafinn þarf langan tíma til að ræða hlutina þegar lög eru samin og dómarar þurfa oft langan tíma til að átta sig á samhengi hlutanna í lagalegum skilningi eru þau seinvirk. Framkvæmdavaldið er aftur fljótt að taka ákvarðanir og framkvæma þær. Reyndar á framkvæmdavaldið bara að framkvæma það sem löggjafinn ákveður en í reynd virkar það ekki þannig.

Löggjafinn og dómsvaldið eru lengi að komast að niðurstöðu vegna þess að þau vilja taka tillit til margra sjónarmiða og forðast að troða einhverjum um tær. Framkvæmdavaldið á ekki við nein slík vandamál að stríða.

Eftir bankahrunið 2008 hefur það orðið ljóst fyrir vesturlandabúum að framkvæmdavaldið fer í einu og öllu eftir vilja og óskum fjármálastofnana og banka. Í raun eru margar frásagnir af hátt settum bankamönnum á fundum með háttsettum ráðherrum að taka ákvarðanir fyrir þjóðir og heilar álfur. Af þeim sökum má draga þá ályktun að þetta þriðja vald lýðræðisins sé samansett úr tveimur hlutum. Annar hlutinn er framkvæmdavaldið sem er kosið á einhvern hátt og því talið löglegt. Hinn hlutinn er efsta lag bankakerfisins sem er ekki kosið heldur eru það fulltrúar stærstu einkabanka veraldarinnar. Þar sem bankahlutinn er mun valdameiri þarf að einbeita sér að eðli og umfangi þess ef menn vilja ná fram breytingum. Það hefur sýnt sig að það skiptir ekki höfuðmáli hvaða tegund af pólitík er rekin af þinginu heldur virðist afurðin alltaf henta bönkum þegar henni er skilað fullunninni frá framkvæmdavaldinu.

Þar sem framkvæmdavaldið á eðli málsins samkvæmt að þjóna almenningi en fer í einu og öllu að vilja bankakerfisins er ljóst að bankakefið er þriðja valdið í lýðræðisþjóðfélögum dagsins í dag. Það hefur aldrei verið kosið af almenningi til þess að sinna þessu hlutverki, almenningur hefur aldrei afhent bankakerfinu með neinum formlegum hætti vald sitt. Bankakerfið hefur náð þessu valdi frá almenningi með því að taka til sín valdið til að búa til peningana okkar. Þannig er ástandið um allan heim, stjórnvöld í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu fara að vilja bankavaldsins.

Bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peninga og þess vegna eru allar ríkisstjórnir háðar bönkunum og fara því að vilja þeirra. Þess vegna þarf að gera peningamyndun að fjórða valdinu í lýðræðinu. Peningamyndun á að vera á forsendum þjóðarinnar og undir stjórn hennar en alls ekki einkafyrirtækis, banka. Meðan bankar hafa einokun á peningamyndun munu allir sitja og standa eins og þeim þóknast. Við getum kosið hvað okkur sýnist, bullandi róttæklinga á alla kanta en þeir munu allir fara sömu leið og hinir, beint oní kampavínsglasið. Reynsla okkar Íslendinga er ólygnust hvað það merkir að fá að kjósa meira af því sama aftur og aftur.

Þess vegna er það augljóst að ef fólk vill breytingar þá þarf það fyrst að ná valdinu til að búa til peninga aftur til þjóðarinnar þar sem það á heima. Til þess að svo megi verða þarf fólk að fræðast um hvað eru peningar, eðli þeirra og uppruna. Þegar fólk hefur skilið það þá mun það verða öllum augljóst og sjálfsagt að framkvæma þær breytingar sem þarf.

Robert H. Hemphill, Credit Manager of the Federal Reserve Bank of Atlanta, said:

„If all the bank loans were paid, no one could have a bank deposit, and there would not be a dollar of coin or currency in circulation. This is a staggering thought. We are completely dependent on the commercial Banks. Someone has to borrow every dollar we have in circulation, cash or credit. If the Banks create ample synthetic money we are prosperous; if not, we starve. We are absolutely without a permanent money system. When one gets a complete grasp of the picture, the tragic absurdity of our hopeless position is almost incredible, but there it is. It is the most important subject intelligent persons can investigate and reflect upon. It is so important that our present civilization may collapse unless it becomes widely understood and the defects remedied very soon“.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur