Laugardagur 28.05.2011 - 00:10 - FB ummæli ()

Læknadóp og viðhorf

Landlæknir var í kastljósinu í fyrrakvöld. Þar sem ég er starfsbróðir hans læt ég nægja að segja að hann hefði getað staðið sig betur. Mér er ekki fyllilega ljóst eftir þáttinn hvort fylgst er með okkur í rauntíma eða eftir á. Sjálfsagt get ég hringt í embættið og komist að því. Hitt veit ég að apótekin sjá ekki hvort annað í tölvunni og að mismunandi heilsugæslustöðvar sjá ekki hvor aðra heldur.

Ef fíkill fer í hjartastopp vegna ofskammts sterkra verkjalyfja fer í gang kerfi sem virkar mjög vel. Allar aðgerðir eru samræmdar úr Skógarhlíð-112 og allir aðilar eru að tala saman. Þá eru ekki neinir lagabókstafir persónuverndar að þvælast fyrir aðgerðum. Er hugsanlegt að það sé vegna þess að viðkomandi er þá látinn. Eins og Laxness nefndi í sögunni um NN þá skiptir það sköpum fyrir verðleika manns að vera látinn.

Það er eitthvað mikið að, það er augljóst. Um er að ræða sjúkdóm sem fellir fjölda manns á ári og oftar en ekki er fólk undir miðjum aldri. Ungt fólk með bráðdrepandi sjúkdóm, orsakir vel þekktar, mismunagreining ekki vandamál, meingerðin líka vel rannsökuð, meðferð er til, horfur þekktar en þrátt fyrir það erum við ekki að ná árangri. Þar sem efnahagskreppur valda aukningu á þessum sjúkdómi hefðum við átt að vera á varðbergi.

Ég tel að að við verðum að koma upp læknadóps gagnagrunni í rauntíma sem er tengdur öllum tölvum landsins sem sinna ávísun og afgreiðslu slíkra lyfja. Þannig gætum við minnkað læknadóp á markaðnum.

Umræðan undanfarið í Kastljósinu hefur snúist um einn flokk fíkniefna og sölumenn þess. Hætt er við að fíkill leiti annað ef tækist að uppræta læknadóp. Sú staðreynd kallar á fleiri lausnir.

Það er eitthvað mikið að, það er augljóst. Hvernig stendur á því ef að barn ánetjast fíkniefnum og hvers vegna er ekki hægt að tilkynna það til 112 og fá sjúkrabílinn á vettvang. Hvað er það í hugsun okkar sem gerir það að verkum að ef einhver dettur og gæti hugsanlega verið í lífshættu að öllum finnst sjálfsagt að hringja í 112. Hvers vegna er það óeðlilegt að hringja í 112 og tilkynna að einhver hafi ánetjast fíkniefnum og sé hugsanlega í lífshættu, jafnvel meiri lífshættu en sá sem dettur.

Ef öllum, lærðum sem leikmönnum, fyndist allt of nærgöngult að beita hjartahnoði eða þá að tilkynna opinberum aðilum að viðkomandi sé í hjartastoppi þá væri árangur endurlífgunar lítill. Að taka þá meðvituðu ákvörðun að endurlífga einhvern á morgun en ekki í dag er ávísun á slæman árangur. Ef við vitum og kunnum að meðhöndla fíkla sem eru í mikilli lífshættu, hvers vegna gerum við það þá ekki?

Það er svo margt sem við þurfum að hugsa upp á nýtt og vonandi mun umfjöllun Kastljóss verða þess valdandi að við komumst eitthvað áleiðis.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur