Laugardagur 28.05.2011 - 23:22 - FB ummæli ()

Tveir heimar

Það er blásið til mótmæla um alla Evrópu á morgun, 29 maí. Krafan er aukið lýðræði og frekari aðkomu að ákvörðunum sem hafa með Evrópubúa að gera. Það er nokkuð ljóst að heimasíða Evrópusambandsins dugar ekki.

Það er verið að mótmæla því að tap einkageirans og sér í lagi bankakerfisins sé lagt á herðar almennings. Spillingin sem er svo augljós í samspili stjórnmálamannanna og fjármálaaflanna er auk þess þyrnir í augum almennings. Almenningi finnst ótækt að kjósa fulltrúa sem þeir treysta og síðan kaupa fjármálaöflin þjónustu sömu aðila fyrir sig.

Því er í raun um tvo heima að ræða. Það erum við almenningur annars vegar og hins vegar svonefnd bankaelíta. Bankakerfið hefur tögl og haldirnar á kjörnum fulltrúum okkar.

Allt þetta eru kunnulegir farsar og þetta þekkjum við frá öðrum heimshlutum. Við Vesturlandabúar höfum horft upp á alþjóðlegt fjármagn rústa svonefndum þriðja heims löndum. Þær þjóðir hafa verið skuldsettar út yfir gröf og dauða. Til að standa í skilum hafa þær þurft að afneita sér um öll venjuleg lifsins gæði og auðlindir sínar. Við höfum starað á kassann þar sem okkur hefur verið sagt að spilltir stjórnendur réðu ríkjum og þeir færu illa með þegna sína sem voru að mótmæla einhverju. Slík framkoma gegn almenningi var gerð í þágu hins alþjóðlega fjármagns.

Núna er röðin komin að okkur Vesturlandabúum.

Það er búið eða er verið að fullgera það að skuldsetja Vesturlandabúa út yfir gröf og dauða. Niðurskurður og afnám lýðræðisréttinda er í farvegi hins alþjóðlega fjármagns í gegnum strengjabrúður þeirra, fulltrúanna okkar. Þar sem fyrrnefnt arðrán hefur verið framkvæmt marg sinnis áður er bankaelítan öllu vön og er reiðubúin að takast á við mótmæli á Vesturlöndum. Eftirlit, njósnir og óeirðalögregla hefur verið byggð upp í skjóli hryðjuverkalaga. Fréttir eru þegar farnar að berast af óblíðum aðgerðum lögreglu gegn friðsömum mótmælendum í Evrópu. Stóru fréttastofurnar segja okkur bara frá vondu köllunum í Jemen en lítið sem ekkert er sagt frá barsmíðum í Grikklandi eða á Spáni. Skýringin er sú að bankaelítan á stóru miðlana. Frakklandsforseti og Obama hafa rætt um nauðsyn þess að koma einhverri stjórn á netið enda er það að þvælast fyrir þeim með opinni umræðu almennings.

Ef mótmælin í Evrópu verða öflug mun bankaelítan bakka og semja um minnstu hugsanlegu tilslakanir til að halda friðinn en koma þó flestum af sínum málum í framkvæmd.

Til að stöðva þessa farsótt skuldsetningar með sínum hand- og fótjárnum verður almenningur að skilja samhengi hlutanna og krefjast réttlætis. Sú krafa verður að vera ófrávíkjanleg og henni verður ekki náð nema með byltingu sem gengur alla leið. Mikilvægasta skrefið í þeirri byltingu er að ná valdinu til að búa til lögeyri sinn sjálfur, þ.e. að einkabankar búi ekki til peninginn okkar. Á meðan svo er eru allir háðir einkabönkum og því valdalausir. Ef almenningur nær aftur valdinu til sín þá munu bankar breytast úr valdastofnunum í venjuleg fyrirtæki.

Mótmæli á Austurvelli 29 maí kl 18:00

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur