Mánudagur 20.06.2011 - 23:25 - FB ummæli ()

Hvort endurreisa Grikkir Agora eða evruna

Grundvallaratriðið í sambandi við þann efnahagsvanda sem steðjar að Grikkjum og heiminum öllum er að það er ekki hægt að gera við núverandi kerfi því það er ekki bilað, það er ónýtt. Því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir þessu verða meiri líkur á því að við förum rétta leið.

Núverandi kerfi byggist á skuld og sívaxandi skuld sem eykst með veldisaukningu getur því ekki haldið áfram endalaust. Lánastarfsemi til verkefna sem geta endurgreitt lánin er forsendan fyrir því að þetta kerfi gangi upp. Þegar farið er að lána til hluta sem geta ekki endurgreitt skuldina hleðst upp skuldafjall sem síðan þarf að hreinsa burt með jöfnu millibili. Hugmyndin er að ef slíkt er ekki gert þá sé ekki hægt að byrja að nýju með nokkurn veginn hreint borð. Til að lánastarfsemi til þeirra sem geta endurgreitt geti hafist að nýju þarf að núlla þær skuldir hjá þeim sem lánuðu til  þeirra sem augljóslega gátu aldrei endurgreitt. Þetta eru grunnforsendurnar fyrir því að menn geti haldið áfram að lifa í endalausum bólum og kreppum-ef menn kjósa það endilega.

Þar sem peningakerfi okkar krefst stöðugt meiri peninga, það dugar ekki bein lína sem halllar upp heldur verður aukningin að vera í veldishlutfalli þá leiðir skortur á peningum strax til vandræða. Þar sem peningar eru búnir til sem lán er hægt að nota orðin peningar og lán sem jafngild orð.

Hvaðan koma skuldir Grikkja?  Stóru bankarnir í Evrópu lánuðu til Grikklands í bólunni. Ef þeir hefðu eingöngu lánað til starfsemi sem ber ávöxt og getur greitt skuldir væri vandræðai stóru bankanna ekki mikil. Þar sem þeir lánuðu óskynsamlega og oft á tíðum settu fé í fjárhættuspil með hlutabréf og gjaldeyri eiga þeir útistandandi mikið af ógreiddum skuldum í Grikklandi. Vandinn hefur dreift sér því að fyrir rúmu ári fór Evrópski Seðlabankinn að kaupa grísk ríkisskuldabréf til að halda Grikklandi á floti og hjálpa einkabönkunum. Þar með seinkaði raunverulegum aðgerðum og vandinn jókst. Einnig er Seðlabanki Evrópu orðinn hræddur við gjaldþrot Grikkja því hugsanlegt er að Seðlabankinn verði gjaldþrota ef Grikkir borga ekki skuldir sínar við hann. Í stað þess að Seðlabankinn sé hlutlaus aðili sem hjálpar þá stendur hann núna með einkabönkunum við að innheimta skuldir þeirra sem að hluta til eru líka orðnar skuldir hans. Þar með hefur ESB ríkisvætt tap einkageirans án nokkurrar umræðu né aðkomu kjörinna fulltrúa í Evrópusambandinu.

Þegar almenningur hugsar um skuldir þá eru það oftast skuldir við fjárfestingu á heimili eða í fyrirtækjum. Í báðum tilfellum reikna menn sig til reiðumanna, þ.e. almenningur gerir ekki ráð fyrir öðru en að standa í skilum. Slík lánastarfsemi borgar sig. Stærstu bankar veraldarinnar bjuggu til verðlausa pappírsvafninga af ýmsum tegundum og sköpuðu þannig stórt fjall af skuldum. Um er að ræða „ópróduktífa“ starfsemi sem er mun frekar fjárhættuspil en bankastarfsemi.

Eftir hrun hafa stóru og seku bankarnir verið að troða þessum mistökum sínum ofan í kokið á almenningi með hjálp spilltra stjórnmálamanna sem syngja kórinn fyrir bankana „ að sjálfsögðu borgar maður alltaf skuldir sínar“. Þar sem almenningur er vanur að standa í skilum hleypur hann til án þess að gera sér grein fyrir því að hann er að borga fjárhættuspilaskuld stóru bankanna. Hingað til hefur sú aðferð reynst illa við spilafíkn.

Þegar kemur að Grikkjum og skuldavanda þeirra þá er mikilvægt að greina þá stöðu sem þeir eru í núna vegna þess að þeir eru fremstir í langri biðröð sem við öll stöndum í.  Í bólunni hagaði grískur almenningur sér alveg eins og íslenskur almenningur. Báðar þjóðir höguðu sér eins og unglingur með platínu kreditkort sem hann hélt að væri óendanlegt. Í dag vilja sumir meina að réttlætanlegt sé að beita aðferðum mafíunnar við að innheimta skuldirnar. Þá eru menn að tala um hornaboltakylfu og þess háttar til að liðka fyrir greiðsluvilja. Stundum er í raun hægt að setja orðin niggari eða júði í stað orðsins Grikki og þá erum við öll komin á viðeigandi stað í þeirri úrkynjun sem blaðamennskan í dag stundar.

Það er sagt að Grikkir séu latir en þeir vinna lang mest í Evrópu samkvæmt OECD, bara Kóreu menn vinna meira. Grikkir vinna 15% meira en Íslendingar á ári og eiga mun styttra sumarfrí en margar Evrópuþjóðir. Frásagnir um að Grikkir fari snemma á eftirlaun eru ósannar, þeir geta reyndar hætt snemma en fá ekki full eftirlaun fyrrr en við 62 ára aldur og þeim aldursmörkum hefur nú verið lyft sem hluta af niðurskurðarpökkum þríeykisins(AGS,ESB,SE).

Einnig er tönglast á því að hagkerfi Grikkja sé veikt og óburðugt og þeir hafi fengið evruna upp á náð og miskunn. Ef Grikkir stóðust ekki inntökuskilyrðin fyrir evrunni vil ég bara minna á að það voru stóru bankarnir(JP Morgan) sem fölsuð skýrslurnar fyrir Grikki. En Grikkland er enginn aukvisi. Þeir hafa verið mun lengur í ESB en margur annar og þjóðarframleiðsla er með því hæsta í heiminum. Samkvæmt rannsóknum á framleiðni Grikkja m.t.t. vinnumanns eða vinnustunda er hún mjög há og alveg á pari við Þjóðverja og Frakka.

Þegar fyrsti björgunarpakki ESB var réttur Grikkjum þá var hann ekki handa grískum almenningi. Grikkir voru neyddir til að kaupa hertæki af Frökkum og Þjóðverjum fyrir milljarða evra.

Sá björgunapakki sem núna er til umræðu er til að bjarga evrunni, ekki grískum almenningi frá skuldum. Það er verið að bjarga misheppnuðu fjárhættuspili banka í bólunni, mistökum sem hafa verið ríkisvædd, mistökum sem hafa verið sett á axlir almennra skattgreienda. Og það sem réttlætir handrukkunarstíl þríeykisins eru þau afglöp grísku þjóðarinnar að hún keypti sér flatskjá. Við könnumst nú við þessa hundalógík hér á Íslandi.

Það sem er þó hættulegast er sú staðreynd að bankaelíta Evrópu er að lána Grikkjum peninga sem allir vita að þeir geta ekki endurgreitt. Slík lánastarfsemi er heimska. Megnið af björgunarpakka 2 fer í vaxtagreiðslur, hernaðaskuldbindingar og að greiða fyrir fjárhættuspil stóru bankanna í Grikklandi. Stóru bankarnir  í Þýskalandi og Frakklandi eru að láta ríku þjóðirnar í Evrópu borga fyrir mistök sín og þeir gera það með því að láta Grikki fá peninga frá ríku löndunum sem enda síðan í hirslum stóru bankanna. Það sem er einkar hættulegt er að á þann hátt draga lánin til Grikkja máttinn úr Þjóðverjum og Frökkum. Ef Grikkir geta ekki staðið í skilum með pakka tvö þá þarf pakka 3 og þar með tæmast sjóðir Þjóðverja og Frakka enn frekar. Eftir situr Evrópa yfirskuldsett og lánadrottnarnir eru stóru einkabankarnir. Þar með hefur valdið til að stjórna Evrópu flust frá kjörnum fulltrúum til bankastjóra sem eru ekki kjörnir né hafa ekki neina samfélagslega ábyrgð, þeirra eina hlutverk í vinnunni er að hámarka gróða bankans.

Þar að auki eru Ítalir, Írar, Portúgalir, Spánverjar og síðan Bretar að bíða í biðröðinni eftir að Grikkir  séu búnir í „meðíferðinni“.

Grikkir hafa þurft að taka á sig gríðalegar skerðingar og verðlag og verðbólga hefur rokið upp. Atvinnuleysi og minnkuð þjóðarframleiðsla gerir ástandið enn verra. Eldri einstaklingar sem hafa greitt skatta og gjöld samviskulega í meira en hálfa öld geta akki lifað á eftirlaununum. Unga fólkið hefur enga trú á valdastéttinni og flýr Aþenu og reynir að koma sér fyrir á landsbyggðinni. Það er talið að í dag lifi þriðjungur Grikkja undir fátækramörkum.

Ef eitthvert vit væri í efnahagsráðgjöfum þá myndu Grikkir hætta við að kaupa öll hergögn, þeir bankar sem stunduðu fjárhættuspil með hlutabréf og gjaldeyri færu einfaldlega á hausinn og menn myndu einbeita sér að endurreisa fyrirtæki sem skapa verðmæti og atvinnu. Því miður dugar það ekki til að tryggja gróða stóru bankanna heldur er það vænlegra fyrir þá að ríkisvæða vitleysuna og láta skattgreiðendur borga brúsann.

Það er öllum þenkjandi mönnum ljóst að tilraunin með evruna mistókst, eða hvað? Ef hugmyndin var að búa til gjaldmiðil sem væri forsenda fyrir stöðugleika, hagvexti og góðu lífi fyrir hinn almenna borgara á evrusvæðinu þá hefur það mistekist. Það er nokkuð merkilegt ef því er velt fyrir sér að mjög margir spekingar skipulögðu evruna af ítrustu nákvæmni af mikilli þekkingu en allt kom fyrir ekki. Það er í raun ótrúlegt að allur þessi her manna skyldi klúðra þessu. Það er enn merkilegra að ég hef lesið greinargerðir sem sendar voru inn í aðdraganda evrunnar sem sögðu allt þetta fyrir og ef menn hefðu tekið mið af þeim athugsemdum þá hefði verið hægt að forða mönnum frá ýmsum hörmungum sem menn upplifa í dag.

Þeir sem hagnast á evrunni í dag eru bankar og fjármagnseigendur í lúxus flokknum. Þeir bjuggu evruna til fyrir sig, það ætti að vera nokkuð ljóst í dag. Evran og Seðlabanki Evrópu hafa hrifsað til sín völdin í Evrópu, „þökk“ sé bankakreppunni.

Evran er byggð á sama grunni og aðrir peningar, sem skuld. Til að hægt sé að búa til evru þarf að taka hana að láni, það sama gildir um aðra gjaldmiðla. Þess vegna eykst skuldsetningin eftir því sem peningar aukast. Ef viðskipti þurfa meiri peninga til að blómstra verður skuldsetningin líka að aukast. Þess vegna verður raunhagkerfið að ganga virkilega vel til að geta staðið undir þessu vitlausa peningamyndunarkerfi. Þess vegna verður raunhagkerfið háð peningamynduninni. Þess vegna gat evran aldrei virkað fyrir raunhagkerfið. Aftur á móti þá virkar evran vel fyrir bankana því þeir búa hana til og lána öðru fólki hana með vöxtum.

Venjulega eru skuldir afskrifaðar í kreppum en í dag ætlar bankaelítan að sýna hörku og ekki afskrifa neitt. Afleiðingin verður að allur arður samfélagsins rennur inn í bankana og til að minnka kostnaðinn við sköpun þjóðarauðsins þá skipa bankarnir almenningi að skera niður allan kostnað.

Þessi lyfseðill sem drepur sjúklinginn er okkur öllum ætlaður fyrr eða síðar. Þess vegna skiptir miklu máli að grísku þjóðinni takist að stöðva framrás bankaelítu heimsins. Um er að ræða lýðræðisbaráttu því með sama áframhaldi mun fjármálaelítan stjórna heiminum en ekki lýðræðsilega kjörnir fulltrúar almennings. Vonandi endurfæðist Agora á ný í Aþenu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur