Fimmtudagur 28.07.2011 - 20:13 - FB ummæli ()

Skal seðja þorsta barnsins eða bankanna

Hvað vill venjulegur Jónsson gera hér á Jörðinni meðan hann lifir. Hann vill eignast fjölskyldu, konu og börn. Skapa þeim trygga umgjörð og uppeldi. Til þess þarf hann vinnu og möguleika. Móðirin vill skapa fjölskyldunni hreiður, athvarf og uppeldisstöð. Stað til að hefja vegferðina út í lífið. Venjulegur Jónsson eða frú Jónsson vilja hvorki vera til trafala né trufla líf annarra. Þetta er sameiginlegt markmið flestra sem stofna fjölskyldu.

Austur-Afríkubúar hrynja núna niður úr hungri og þorsta. Vesturlandabúar safna krónum til að lengja dauðastríð þeirra. Fátæku lönd heimsins borga mun meira í afborganir af lánum til hinna ríku Vesturlanda en þau fá í þróunaraðstoð. Afborganirnar ganga til ríkra banka á Vesturlöndum. Fátækir Vesturlandabúar senda peninga til fátæku landanna svo þau geti borgað ríku bönkunum á Vesturlöndum skuldir sínar. Bankarnir mjólka alla. Ef skuldir fátæku þjóðanna væru afskrifaðar þá myndu ríkir bankar fá minna og venjulegur Jónsson í Afríku gæti þá séð fjölskyldu sinni farborða og þyrfti ekki horfa upp á barnið sitt deyja úr þorsta.

Grikkir verða að selja eyjar, ríkisfyrirtæki og sætta sig við kauplækkanir og skerðingu á heilbrigðiðs- og félagskerfinu til að bankar fái allar sínar skuldir endurgreiddar. Sömu sögu má segja um Spánverja, Portúgali, Íra og Ítali. Næstir í röðinni eru Frakkar og Þjóðverjar. Bandaríkjamenn og dollarinn eru í andarslitunum. Samtímis gellur í Steingrími J. Sigfússyni á Íslandi að Íslendingar munu borga allar sínar skuldir, sannur vikapiltur bankaveldissins.

Síðan munu Vesturlandabúar frekar borga skuldir sínar til bankanna en að gefa börnunum sínum vatn að drekka vegna þess að Steingrímar þeirra hafa sagt að svo skuli það vera.

Venjulegur Jónsson vill bara koma börnum sínum á legg í friði við allt og alla.

Hvað veldur að svo verður ekki?

Ef allir vilja bara koma sínum börnum í flughæft ástand úr hreiðrinu en það tekst ekki þá er einhver staðar pottur brotinn eða hvað? Hvað er það sem stöðvar einlægan ásetning „ allra“.

Peningar og skuldir er svarið.

Hver vill sitja atvinnulaus hálfa ævina, geta ekki framfleitt sér og sínum. Hver vill horfa á barnið sitt deyja úr hungri og þorsta. Það er allt til staðar. Hugmyndir, vinnuafl, verkefni og hráefni. Bara að setja starfsemina af stað. Peninga skortir og hvað eru þessir peningar eiginlega.

Bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peninga. Peningar eru eining fyrir verðmæti. Peningar eru miðill fyrir verðmæti. Peningar eru geymsla fyrir verðmæti. Peningar eru verkfæri til að gera okkur lífið einfaldara. Peningar eru ávísun á verðmæti. Verðmætin koma fyrst og síðan peningar því þeir eru ávísun á verðmæti sem eru til staðar. Þessu hefur verið snúið við í núverandi kerfi. Fyrst þurfum við peninga frá bönkunum og þurfum að setja verðmæti okkar sem pant svo við fáum lánaða peninga hjá bönkunum. Síðan getum við framleitt verðmæti. Þess vegna eru peningar flöskustútuinn í framleiðslu í dag, ekki mannafli eða hráefni.

Megin kostnaðurinn við framleiðslu verðmæta er ekki hráefni, mannafli og laun heldur kostnaðurinn við að skaffa sér peninga. Peningar eru eining eins og metrar. Væri það ekki geggjað að fara í banka og skuldsetja sig um hundrað metra til að geta síðan keypt hundrað metra af timbri. Ef bankinn myndi síðan ekki lána mér hundrað metra þá gæti ég ekki keypt hundrað metra af timbri þó timbrið væri til. Timbrið er til, ég er til og reiðubúinn að smíða úr því en bankinn vill ekki lána mér eininguna metra. Sama gildir um eininguna krónur sem er eining fyrir verðmæti.

Afríkubúinn sem vill bara ala önn fyrir sér og sínum í friði við allt og alla, hann getur allt, hann hefur allt til þess að gera það nema peninga, einingu yfir verðmæti. Fyrir honum er það svipað og að geta ekki gefið barninu sínu vatn að drekka vegna þess að einhver einkastofnun, banki, hefur einkaleyfi á einingunni lítrum. Til að gefa barninu sínu einn lítra af vatni þarf hann fyrst að fá lánaðann lítrann, eininguna, hjá bankanum. Vatnið er til staðar en þar sem bankinn neitar honum um lán á einingunni lítrum og bankinn hefur einkaleyfi á einingunni Lítrum þá deyr barnið hans úr þorsta.

Lítri, metri eða króna. Þetta eru allt einingar og miðill fyrir viðkomandi hluti.

Einokun á þessum einingum skapar einum auð og öðrum dauða.

Er það réttlæti?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur