Laugardagur 13.08.2011 - 21:53 - FB ummæli ()

Skortur á jarðsprengjum

Það er mjög sérkennilegt að skynja jarðsprengjubelti, reyna að varast það og samtímis horfa á fjöldann ganga beint af augum og springa í tætlur.

Það er í raun mun sérkennilegra að fá ekki hljómgrunn fyrir því að það sé kerfislæg villa að framleiða jarðsprengjubelti og þurfa að hlusta á það sem stóra sannleik í sífellu að það hafi verið mistök viðkomandi að stíga á sprengjuna.

Að fylgjast með mönnum rökræða sig dimmbláa eða skærrauða, um að það skipti máli hvernig jarðsprengjunum sé best raðað upp í tilverunni, er sorglegt. Framleiðandi jarðsprengnanna heldur mjög gjarnan lífi í slíkri umræðu því þá ræða menn mun síður um að sprengjur springa.

Að liggja í grasinu í leti er forréttindi. Sá blái telur það verðskuldað en ég veit að það er að mestu byggt á hagstæðum aðstæðum og heppni. Að reisa kennisetningu um hamingju fjöldans á slíkum forsendum, aðstæðum og heppni, er dæmt til að mistakast eins og dæmin sýna.

Sá rauði væri líklegur til að draga þá ályktun að fjármagni væri ekki dreift nægjanlega jafnt. Sú forsenda gerir ráð fyrir því að einhver, kannski ég, hafi of mikið og því beri að fjarlægja ákveðin hluta af mínum auð til þeirra sem hafa minna. Viss yfirborðsgljái fylgir þessari kenningu en þrátt fyrir það er hún röng í eðli sínu. Sá blái telur hins vegar að dreifingin gerist sjálfkrafa með einhverri guðlegri forsjón markaðarins.

Þessi kenning gengur út frá þeirri forsendu að auðævi heimsins séu takmörk sett og því þurfi að skammta. Skortshugtakið er sterkasta vopn þeirra sem vilja stjórna heiminum og virðist eiga sér greiða leið inn í vitund fólks. Ástæðan er sennilega sú að lang flestir þekkja skort í einhverri mynd. Til að þessi kenning haldi vatni þarf fyrst að sýna fram á raunverulegan skort.

Það sem skiptir máli er að skilja að fyrst framleiðum við verðmæti. Til þess notum við hráefni, vinnuafl og tækni. Þar sem enginn skortur er á þessum þáttum er ekki um neinn raunverulegan skort að ræða. Þegar verðmætin hafa verið sköpuð notum við pennga til að koma verðmætunum áfram um þjóðfélagið.

Eins er íslenskum verktaka farið, hann hefur allt til alls til að framleiða verðmæti, engan skort en er samt stopp. Afríski bóndinn með frjósama jörð og allt til alls, hann er líka stopp þrátt fyrir engan augljósan skort til að getað hafið framleiðslu á mat.

Það sem þessa framkvæmdamenn skortir eru peningar. Bankar framleiða peninga og við þurfum að taka þá að láni og endurrgreiða með striti okkar. Ef peningar eru ekki lánaðir út í þjóðfélagi er öll framleiðsla stopp. Ef við samþykkjum skort á peningum þá getum við samþykkt kenninguna um að auðæfin hrynji af borðum duglega fólksins eða þá að við setjum upp kerfi sem jafnar út skortinn.

Bankar sem hafa einkaleyfi og einokun á því að búa til peninga ráða því hversu mikið af peningum eru til. Bankar geta því búið til skort á peningum. Það er því bönkum til hagsbóta ef helstu stjórnmálakenningar og hagfræðikenningar viðurkenna skortshugtakið sem yfirguðlegt óbreytanlegt ástand. Á meðan enginn véfengir tilurð skortsins heldur sætta sig við hann þá sigla bankarnir án þess að skeyta á skeri. Þess vegna stendur bönkum hvorki ógn af hægri né vinstri stjórnmálakenningum. Það sem hefur gerst eftir að kreppan hófst 2007 hefur sýnt okkur að það hefur ekki skipt nokkru máli hvernig leiðtogar almenningins hafa skilgreint sig pólitískt því þeir hafa alltaf farið að vilja bankanna.

Jörðin okkar getur framfleitt okkur öllum svo vel sé og þó að við værum snöggtum fleiri. Það er enginn skortur á hráefni, vinnuafli, tækni né kunnáttu. Til að framleiða verðmæti þarf ekkert annað en hráefni, vinnuafl, tækni og kunnáttu og þar er engan skort að sjá.

Meðan bankar stjórna peningamyndun stjórna þeir allri framleiðslu í heiminum með skorti á peningum. (PENINGAR OG STJÓRNARSKRÁ 15 06 2011)

Meðan kennisetningar helstu stjórnmálastefna veraldarinnar, vinstri, hægri eða miðja, hafna ekki einkaleyfi banka á því að búa til peningana okkar þá mun ekkert breytast til batnaðar. Á meðan stjórnmálamenn halda áfram að rífast um hvernig við röðum upp jarðsprengjum í stað þess að véfengja tilurð þeirra munu kreppur og fátækt halda áfram að vera til staðar.

Meðan bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peningana okkar þá stjórna þeir þeim sem við kjósum til að stjórna fyrir okkur. Ef við tökum valdið til að búa til peninga  til okkar frá bönkunum getum við kannski farið að rífast um pólitík af einhverju viti. Auk þess mun afríski bóndinn geta framleitt mat og síðan þarf hann peninga til að versla með sína framleiðslu en ekki öfugt. Þá mun afríska barnið með útstæða magann hætta að mæta á sjónvarpsskjáinn með jöfnu millibili.

Eigum við að hætta að rífast um isma og að núa hvort öðru um nasirnar af mistökum okkar isma til að skapa hamingju fyrir fjöldann. Eigum við að hætta að nöldra yfir Steingrími og Jóhönnu sem eru bara strengjabrúður bankanna og það dregur bara athyglina frá sjálfum bönkunum. Eigum við að átta okkur á því að enginn núverandi stjórnmálaflokkur hefur getu né þroska til að breyta ástandinu fyrir okkur. Eigum við að hætta að vera í einhverju ákveðnu liði sem hefur þá aukaverkun að við hugsum ekki sjálfstætt. Eigum við að sættast á að vinna að því að útrýma valdi bankanna yfir tilveru okkar, eigum við að sameinast um að verða frjáls svo við getum farið að rökræða um lífið og tilveruna í stað þess að vera að stöðugt að telja fallna félaga.

Ábyrgðin er mikil.

Það er dauðans alvara ef pólitík gengur út á það að taka skortstöðu eða ekki á jarðsprengjum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur