Þriðjudagur 16.08.2011 - 17:51 - FB ummæli ()

Við vitum það

Það er sérkennilegt að allir vita sannleikann en hlaupa í hringinn í kringum hann eins og köttur í kringum heitan graut. Þegar eru til margar svartar lýsingar á framferði banka og innheimtustofnana. Við vitum öll að þær stofnanir ganga fram af algjöru miskunnarleysi til að fullnægja eigendum sínum. Við vitum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fulltrúi innheimtustofnana eða lánadrottna heimsins. Við vitum að AGS stjórnar á Íslandi og allt verður gert til að íslenska þjóðin geti sett eins mikla fjármuni til lánadrottna án tillits til afleiðinga. Þess vegna verður allt íslenska hagkerfið stillt af á þann hátt að allur kostnaður(velferð) verður skorin niður, skattar og álögur hækkaðar til að bankarnir fái sitt. Við vitum að Steingrímur og Jóhanna ætla að fylgja þessari stefnu út í ystu æsar. Við vitum að Sjálfstæðisflokkurinn heldur sér til hlés vegna þess að Steingrímur fylgir stefnu hans af alúð.

Þrátt fyrir að við vitum allt þetta þá erum við voða kurteis. Björn Zoega mótmælir í rituðu máli en þrátt fyrir það fær hann nettar ávítur frá Birni Val sem er dúkkan hans Steingríms búktalara. Reyndar dregur Björn Valur aðeins í land á yfirborðinu í nýjum pistli í dag. Hjúkrunarfélagið semur ályktun gegn niðurskurðinum, líka kurteis mótmæli. Það sem Björn Valur segir má túlka sem hugsanir ríkisstjórnarinnar og reyndar koma þær skýrt fram í orðum Velferðaráðherra.

Valdhafarnir ætla að sinna þörfum bankanna á kostnað velferðamálanna hvað svo sem það mun kosta. Kröfur bankanna er löglegar og réttmætar að mati valdhafanna á Íslandi. Kröfur almennings um gott velferðarkerfi eru ekki lögmætar né réttmætar því eins og Velferðaráðherrann segir þá kemur það ekki að sök þó heilbrigðiskerfið versni því við höfum það svo andsk.. gott nú þegar.

Við vitum þetta allt svo mæta vel. Við vitum líka að nöldur mun ekki breyta neinu. Valdhafarnir vita það líka og þess vegna vita þeir að þeir eiga leikinn.

Við vitum að við verðum að ógna, við vitum að við verðum að setja úrslitakosti sem hafa það í för með sér að valdhöfunum finnist það skárri kostur að fylgja okkar fyrirmælum frekar en bankanna.

Við vitum að bylting er eina svarið,, en við þorum það ekki. Þangað til breytist ekkert okkur í hag.

Ef almenningur vill betri kjör þá verður hann að tjalda á Austurvelli í stórum hópum í langan tíma þangað til valdstéttin sér sitt ofvænna og áttar sig á því að það erum við sem erum valdið,

í raun byggist framtíð okkar og barnanna okkar á því að við föttum það líka.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur