Miðvikudagur 31.08.2011 - 20:06 - FB ummæli ()

Vilji er allt sem þarf

„Sá vægir sem vitið hefur meira“.
Upp á síðkastið hef ég velt því fyrir mér hvaða vitleysingur sagði þetta fyrst. Öll lífsreynsla mannsins mælir gegn þessu. Tilvist dýra er í hróplegu ósamræmi við þessa fullyrðingu. Án þess að ég viti hverjir það eru sem barið hafa þetta inn í hausinn á okkur þá tel ég lang sennilegast að um sé að ræða þá sem nenna ekki að berja á minnimáttar og vonast til að þeir gefist strax upp.
Í dag gerðist merkilegur atburður. Heimavarnaliðinu tókst að koma útburði í hámæli með því að þvælast fyrir valdhöfunum.Hópur ungra og vaskra lögreglumanna og kvenna tókst með fjölmennu og samhentu átaki að fleygja miðaldar körlum og kerlingum ofan af þremur tröppum. Fyrr gat sýslumaðurinn ekki brotið sér leið inná heimili fjölskyldunnar.
Nú veit ég ekkert um hagi þessarar fjölskyldu en tel þó að þjóðarbúinu sé það hagstæðara að viðkomandi ali manninn á sínu heimili og komi börnum sínum á legg. Þannig verða þau góðir og gildir skattgreiðendur. Bankinn er sjálf sagt ekki að velta því fyrir sér og fullur af réttlætiskennd vill hann fá skuld sína greidda, hvað sem það kostar. Jafnvel þó að hann hafi svindlað upp skuldina og þar að auki oft með ólögmætum lánum að mati Hæstaréttar Íslands.
Hvers vegna dregur lögreglan ekki bankamenn af stalli sínum og snýr upp á handleggin á þeim?
Jú, vegna þess að það eru bankarnir, lánastofnanir og aðrir valdhafar sem stjórna og þeir gera það í krafti vald síns. Þau eru sterkari og almenningur er minnimáttar.
Þess vegna er vandamálið einfalt, almenningur þarf að vera sterkari en núverandi valdhafar og þar með stjórnar almenningur og þá mun lögreglan snúa upp á handleggina á banksterunum.
Til þess að almenningur verði sterkai en núverandi valdhafar þarf almenningur að sameinast því sameinuð erum við ósigrandi. Sundruð getum við alveg eins verið á útsölu í Kringlunni. Síðan verðum við að gera valdhöfunum tilboð að hætti Guðföðursins, „make him an offer he can‘t refus“
Við verðum að sameinast og gera eitthvað sem veldur því að farið sé að vilja okkar en ekki bankanna. Ef við viljum einhverjar breytingar á framtíð okkar þá gætum við sest að á Austurvelli í stórum hópum og búið þar í tjaldbúðum. Ef við erum nógu mörg og í nægjanlega langan tíma þá kollvörpum við kerfinu. Þar með verðum við valdhafarnir með öllum þeim skyldum sem því kann að fylgja, og kostum.
Þess vegna er ekki við nokkurn annan að sakast en okkur sjálf að ástandið er eins og það er. Ekki er hægt að agnúast út í bankana fyrir að vilja græða á tá og fingri, sérstaklega ekki þegar lögreglan og ríkisstjórnin aðstoðar þá á kostnað skattgreiðenda.
Það erum við sem breytum þessu, það gerir það enginn fyrir okkur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur