Laugardagur 10.09.2011 - 23:00 - FB ummæli ()

Chomsky og tjöld á Wall Street

Ég skrifaði færslu um skoðun Chomsky á stöðu lýðræðis í heiminum í dag og finnst mér hann komast vel að orði þegar hann segirBy shredding the remnants of political democracy, the financial institutions lay the basis for carrying the lethal process forward — as long as their victims are willing to suffer in silence“.

Þarna kristallast skoðun hans og margra annarra að fjármálaöflin séu að ganga að lýðræðinu dauðu og þau nái sínu fram vegna þess að almenningur stendur ekki upp og andmælir.

Almenningur á Íslandi orðar þetta þannig „að bankarnir ráði öllu“ og að „það þýðir ekkert að mótmæla“.

Skoðanakannanir víða um heim sýna að almenningur vill allt annað en valdhafarnir. Almenningur vill skera niður útgjöld til hermála en viðhalda eða auka útgjöld til velferðarmála. Oft er þessi skoðun almennings dæmd sem óábyrg eða draumsýn af hálfu valdhafanna. Þess vegna er augljós gjá á milli valdhafa og almennings víða um heim. Almenningur er auk þess meðvitaður um að fjármálstofnanir njóti það mikillar velvildar kjörinna fulltrúa að honum finnst sem fjármálaöflin stjórni en ekki kjörnir fulltrúar.

Víðs vegar um heiminn reyna hópar að sameina almenning í þeim tilgangi að endurreisa lýðræðið, að almenningur fái aftur það vald sem tilheyrir honum samkvæmt lýðræðinu.

Næstu helgi, þann 17. september, ætla bandarískur almenningur að tjalda á Wall Street og vera þar þangað til að Obama hlustar. Krafan er einföld, við erum 99 prósentin og viljum endurreisa lýðræðið.  Samtímis koma fréttir af öðrum viðburðum fyrir framan fleiri kauphallir í heiminum þennan sama 17. September. Í Washington D.C á Freedom Plaza ætlar annar hópur að setjast að eins lengi og hann getur frá og með 6. óktóber. Að lokum eru mjög margir hópar að skipuleggja mótmæli 15. október víðsvegar um heiminn.

Það er því augljóst að mörgum er nóg boðið og ætla ekki að taka örlögum sínum þegjandi og hljóðalaust. Öllum ætti að vera það ljóst að það er mjög óeðlilegt að allir þeir fjármunir sem almenningur skapar renni inn í bankana samtímis og kjör almennings fara stöðugt versnandi. Að kjörnir fulltrúar almennings séu þessu sammála sýnir glögglega að um mjög alvarlegan trúnaðarbrest er að ræða.

Að við kjósum okkur fulltrúa aftur og aftur, í öllum regnbogans litum, sem bankastofnanir segja síðan fyrir verkum er augljós merki þess að lýðræðið er hætt að virka.

Mjög mörgum á Íslandi finnst það ekki þjóna tilgangi að mótmæla því það verða engar breytingar í kjölfarið. Það kom mjög skýrt í ljós eftir mótmælin í október í fyrra þegar valdhafarnir sögðust ætla að minnka skuldir almennings en fengu ekki leyfi hjá bönkum og lífeyrissjóðunum. Þess vegna verða íslenskir mótmælendur einnig að taka upp egypsku aðferðina og hertaka torg með tjaldbúðum til langframa.

….. as long as their victims are willing to suffer in silence“.


Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur