Laugardagur 17.09.2011 - 16:52 - FB ummæli ()

Hver veldur lýðræðinu

Það er ekki sjálfgefið að fólk taki sér tima til að safnast saman og mótmæla á opinberum vettvangi. Þrátt fyrir það hafa mótmæli verið stunduð um langan aldur þar sem því hefur verið komið við. Margir hópar víðsvegar um heiminn eru núna að stefna fólki saman til að mótmæla.

Óhugnalegar afleiðingar græðginnar blasa við. Gróði er eini löglegi samskiptamáti einstaklinga. Manneskjan er sem hlutur til sölu með verðmiða á sér. Ótakmarkað frelsi til að auðgast samtímis sem vasaþjófum eru settar þröngar skorður. Valdhafarnir eins og úr öðru sólkerfi þegar þeir tala. Fátækt og hungur í engum tengslum við birgðastöðu heimsins.

Almenningur hefur reynt það ítrekað að kjósa mismunandi pólitíska flokka án þess að mikið breytist. Alltaf virðast peningaöflin, gróðinn ráða öllu.

Þess vegna er það ekki sérkennilegt að margir þeirra sem mótmæla í dag eru að því vegna þess að þeir upplifa það svo sterkt að það er eitthvað mikið að, það er eitthvað mikið að því kerfi sem við búum við. Þess vegna fer fólk og mótmælir og krefst breytinga og vill taka fullann þátt í því að greina og leysa vandann. Þess vegna einkennast margar mótmælastöður af fundarhöldum þar sem almenningur í sameiningu reynir að leita lausna.

Þess vegna þurfa mótmæli ekki að vera skipulögð um einhverjar mjög þröngar ákveðnar kröfur. Mótmælafundur getur verið lifandi samkoma. Þar geta menn rökrætt í mörgum formum og komist að niðurstöðu. Þess fleiri sem koma að þeim ákvörðunum því betra.

Það sem hefur einkennt umræðuna á Vesturlöndum er að kjörninr fulltrúar almennings eru ofurseldir valdi bankakerfisins. Samtímis viðurkenna menn að sú staða hefur lengi verið hjá fátæku þjóðum heimsins og núna reyna Vesturlandabúar að læra af reynslu þeirra. Mikil umræða er um hvernig standi á því að bankar stjórni en ekki kjörnir fulltrúar og án tillits til þess hversu oft almenningur skiptir um fulltrúa.

Er það hugsanlegt að skynjun almennings um villuna í kerfinu okkar sé þessi að bankavaldið sé ofar löggjafarvaldinu, dómsvaldinu og framkvæmdarvaldinu. Ef einkafyrirtæki stjórna grunnstoðum þess lýðræðiskerfis sem við höfum komið okkur upp þá búum við ekki við það lýðræðiskerfi sem við héldum.

Er það þá ekki góð hugmynd að safnast saman og ræða hvort og hvers vegna þetta er svona?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur