Föstudagur 23.09.2011 - 22:24 - FB ummæli ()

Ertu núll eða komma í bókhaldi bankanna

Bankarnir fengu lánin okkar á hálfvirði en rukka okkur í topp og ef við getum ekki borgað þá taka bankarnir eigurnar af okkur. Hagnaður bankanna eru tugir milljóna á dag. Bankarnir seldu okkur ólögleg lán sem þeir vissu að voru ólögleg. Það heitir að syndga upp á náðina og er eina syndin sem Guð almáttugur getur ekki fyrirgefið. Það gátu aftur á móti Hæstiréttur og framkvæmdavald Íslands og er það vegna þess að Ísland stjórnast af hefðum en ekki lögum.

Margir trúðu því að fyrsta stóra vinstri stjórnin á Íslandi myndi huga að lítilmagnanum en ekki bankakerfinu. Reynslan hefur sýnt okkur að ekkert breyttist til batnaðar og núverandi ríkisstjórn er jafn auðsveip bankakerfinu og aðrar, bæði hér og erlendis. Það er sameiginlegur raunveruleiki hjá mörgum þjóðum að það skiptir engu máli að kjósa sér nýja fulltrúa til að stjórna fyrir sig. Eftir sem áður er hagur banka og fjármagns hafður í fyrirrúmi.

Á Alþingi okkar sitja fulltrúarnir sem við kusum til að fara með valdið sem tilheyrir okkur. Framkvæmdavaldið-ríkisstjórnin eru afkvæmi þingsins. Þessir aðilar sem við kusum fyrir okkur er stjórnað af bönkunum en ekki okkur. Þeir eru strengjabrúður bankanna. Fulltrúarnir eru skíthræddir við bankana en ekki okkur vegna þess að bankarnir eru valdameiri en fulltrúarnir okkar sem hafa þó valdið okkar.

Hegðun stjórnvalda um allan heim er svo lýsandi fyrir þá staðreynd að bankar og fjármálaöflin stjórna en ekki kjörnir fulltrúar. Það endurspeglast líka í kröfum mótmælenda á fjölmörgum stöðum, krafan um aukið lýðræði, um aukna möguleika almennings til að stjórna en ekki vera meðhöndlaður sem hver önnur vara sem má versla með.

Á næstunni gefst Íslendingum kostur á að gefa til kynna hvort þeir eru sáttir við að vera verslunarvara bankanna, núll og kommur í bókahldi þeirra, eða hvort landsmenn telji sig eiga heimtingu á réttlæti. Mánudaginn 26. september verður klukkan 20 í Háskólabíó fundur um lánamálin. Lögbrotin sem fylgja þeim gjörningum eru svo ljósfælin að það eitt að fá einhvern, löglærðan eða ekki, til að tala máli lögbrjótanna hefur reynst nánast ógjörningur.

Það er lýðræðisleg skylda almennings að gefa til kynna með afgerandi hætti ef traðkað er á okkur. Með góðri fundarsókn komast skilaboðin til skila. Að sama skapi gefur fámenni valdhöfunum vissuna fyrir því að endanlegur sigur sé unnin.

Framtíðin er í höndum almennings sem þarf að gera sér grein fyrir því að valdið er hans og ákvörðunin líka.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur