Miðvikudagur 19.10.2011 - 20:39 - FB ummæli ()

Tómatsósa og Bankar

Það eru margir sem upplifa eða vita að bankakerfið stjórnar veröldinni. Þeim sem skynja þetta fer fjölgandi. Mótmæli víðsvegar um heiminn bera þess merki því að það eina sem þau öll hafa sameiginlegt er gagnrýnin á bankakerfið. Í Evrópu sjáum við gríðarlegan niðurskurð og væntanlega örbirgð. Stjórnvöld í viðkomandi löndum svara gagnrýni þegna sinna á þann hátt að þetta sé gert að kröfu lánadrottna. Annars fái ríkisstjórnir ekki frekari lán.

Það er því staðfest að þeir fulltrúar sem fólkið kaus sem valdhafa eru ekki valdhafar. Hitt er líka ljóst að fólkið kaus aldrei bankakerfið til að fara með valdið fyrir sig. Þess vegna er krafan um endurreisn lýðræðisins svo hávær um allar álfur.

Ef við breytum bankakerfinu í venjuleg fyrirtæki eins og dekkjaverkstæði eða blómabúð þá breytist margt. Slík fyrirtæki geta farið á hausinn í kyrrþey og lotið lögum löggjafans.

Þá væri lýðræðið endurreist því þá væru þeir sem við kjósum hrædd við okkur en ekki bankana. Ég veit ekki til þess að Steingrímur sé hræddur við dekkjaverkstæði en ég veit að hann er skíthræddur við banka og aðra lánadrottna.

Þar sem bankakerfið og fylgifiskar þess hugsa mest um skammtímagróða þá eru þeir í andstöðu við hið eðlilega gangverk náttúrunnar. Hraðamet í gróða krefst þess að auðlindir séu fullnýttar löngu áður en börnin okkar komast á legg. Þess vegna mun óskert valdastaða bankakerfisins ganga af jörðinni dauðri fyrr en varir.

Vald bankakerfisins er að það hefur einkaleyfi á því að framleiða peningana. Þess vegna verðum við að afnema einkaleyfi bankakerfisins til að framleiða peningana sem við notum. Megin ástæðan, fyrir utan að það skapar bönkunum óeðlilegt vald, er að bankarnir lána okkur peningana. Við það að þeir lána okkur peningana þá erum við komin í skuld við bankana. Þegar peningar eru búnir til sem skuld þá þurfa allir að vinna til að framfleyta sér og líka til að endurgreiða bönkunum fyrir lánið af peningunum. Þar með þurfum við að vinna tvöfalt.

Ef ríkið þarf peninga þá þarf það að taka þá að láni frá bönkum í formi ríkisskuldabréfa/víxla, þ.e. ríkið verður að skuldsetja sig. Bankinn býr til peningana fyrir ríkið og fær skuldaviðurkenninguna í staðinn. Síðan getur ríkið búið til skóla eða eitthvað annað.

Þessi sérstaða bankanna fram yfir blómabúðina skapar þeim völd. Þau völd eru svo afgerandi að þeir stjórna kjörnum fulltrúum um víða veröld. Utaná þessu valdi er síðan hirð annarra fjármála- og stórfyrirtækja sem blandast og tengjast því með margvíslegum hætti.

Peningar eru verkfæri alveg eins og hamar. Þú getur haft þínar skoðanir á því hvað hamar er en það er samt alltaf á endanum eingöngu siðferðileg ákvörðun hvort þú neglir nagla eða drepur mann með hamri. Þú getur því haft þínar skoðanir á því hvað peningar eru en það er líka alltaf siðferðileg ákvörðun hvernig þú vilt nota peninga.

Ef peningar eru framleiddir af almenningi þá er hægt að framleiða peninga ókeypis. Þá framleiðir almenningur fyrst verðmætin og fær síðan afnot af peningum án skuldsetningar til að flytja verðmætin í framleiðslunni frá einum stað til annars. Ef við framleiðum ekkert þá þurfum við enga peninga. Þess vegna er alltaf sköpun verðmæta fyrst og síðan framleiðsla peninga til flytja verðmætin til.

Ef peningar yrðu framleiddir í samræmi við framleiðsluna á verðmætum yrði engin kreppa því kreppan í dag skapast af skorti á peningum en ekki mannafla né hráefni. Ef framleiðslan er að grafa skurð þá er mjög erfitt að taka skurðinn með sér í Bónus til að kaupa mjólk. Þess vegna eru peningar bara verkfæri til að flytja verðmætin okkar frá einum stað til annars. Þess vegna eru peningar í sjálfu sér verðlausir.

Afleiðingin af peningaframleiðslu án skuldsettningar yrði sú að við gætum unnir helmingi minna með sömu lífsgæðum.

Afleiðingin af peningaframleiðslu án skuldsetningar yrði að ríkið þyrfti varla að leggja á neina beina skatta því þeir endurspegla kostnað ríkissins við lántöku á peningum frá bönkum.

Afleiðingin af endurreisn lýðræðisins yrði að markmið hins venjulega manns yrði stefna stjórnvalda, ekki stefna þeirra sem vilja hámarksgróða á sem skemmstum tíma.

Stefna hins venjulega manns er að lifa í friði og spekt. Koma börnum sínum á legg og varðveita náttúruna vegna barnanna. Samkeppni um lífsins gæði liggur ekki hjartanu næst hjá hinum venjulega manni heldur umhyggja. Að verða ríkasta líkið í garðinum er ekki keppikefli hins venjulega manns. Við lifum í hópum og því er heildarafkoma hópsins mikilvægust. Þeir sem elda stríð og ástunda samkeppni innan hópsins lifa skemur það hefur reynslan kennt okkur.

Samheldni, samhjálp og umhyggja er það sem heldur lífi í hópnum. Þess vegna er einkaleyfi bankakerfisins á valdinu til að framleiða peningan okkar stílbrot. Þeir eru eins og mávur sem hefur verið ataður tómatsósu. Hópurinn getur ekki tekið áhættuna af stílbrotum.

Því fyrr sem við sem hópur bregðumst við því minni skaði fyrir hópinn, en við munum bregðast við, það er bara spurning um hvenær.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur