Sunnudagur 06.11.2011 - 23:25 - FB ummæli ()

Fimmti flokkurinn..eða

Allt frá hruni hafa verið gerðar tilraunir til að stofna stjórnmálaafl til að hemja fjórflokkinn og sérhagsmunagæslu hans. Borgarahreyfingin var stofnuð í nokkrum skyndi og ekki gengið frá stefnuskrá í öllum megin málum íslenskra stjórnmála. Það reyndist ungu stjórnmálaafli erfitt. Eftir því sem lengra hefur liðið á kjörtímabilið hafa aðilar innan grasrótarinnar horft meira til næstu kosninga og reynt að stilla saman strengi. Sameiginleg sýn nokkurra hópa  er að sameinast undir nýjum merkjum, flokki ef menn vilja kalla það því nafni. Hóparnir er núna reynslunni ríkari og vilja að vel takist til.

Lilja Mósesdóttir hefur ákveðið að mynda nýtt stjórnmálaafl. Það er sjálfsagt ekki auðvelt að gefa kost á sér til að stofna stjórnmálaflokk  eins og Lilja gerir núna. Hún er að svara kalli margra í þjóðfélaginu sem geta ekki hugsað sér að kjósa fjórflokkinn. Það er nokkuð ljóst að vegna mikilla væntinga er ábyrgðin mikil. Einnig er mjög mikið í húfi fyrir Ísland og Íslendinga.

Ábyrgð þeirra sem hafa svipuð markmið og Lilja eru líka mikil. Margir vænta mikils af Lilju en það er erfitt að bíða, auðvitað viljum við að Lilja spretti fram með slagorð og borða, allt tilbúið. Auk þess er alltaf draumurinn að hún og fleiri slái saman strengi sína og úr verði öflug fjöldahreyfing. Við ættum kannski að anda með nefinu og minnast Þorgeirs ljósvettningagoða, en hann lagðist undir feld og á meðan varð þingheimur að bíða. Hugsanlegt er að Lilju sé eins farið, kannski er hún enn undir feldi.

Það er ekki frágangssök að vilja vanda til verka og dæmin hræða því hópar hafa áður stofnað stjórnmálaafl án þess að hugsa dæmið til enda. Ábyrgð okkar allra er mikil sem viljum að réttlætið nái fram að ganga í þjóðfélagi okkar. Ef við öxlum hana af skynsemi og í sameiningu gæti veturinn orðið mjög árangursríkur. Við megum ekki gera fjórflokknum það til geðs að klúðra þessu tækifæri með fljótfærni eða skorti á samtali.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur