Föstudagur 25.11.2011 - 19:42 - FB ummæli ()

Hálsól ESB

Þetta bara gerðist, það er engum að kenna og við erum bara komin hingað. Ekkert við því að gera og best að halda áfram uppteknum hætti. Láta lítið fara fyrir sér og vona að maður sleppi þá með skrekkinn.

Það ætti flestum að vera ljóst að það er fátt sem bara gerist af sjálfu sér. Það þarf eitthvað meira til. Þegar kemur að efnahags- og peningamálum þá er það græðgi þeirra sem eru í betri aðstöðu til að sópa til sín sem mestan  auð sem ræður för. Vegna þess að þeir eru í valdaaðstöðu til að láta slíkt gerast fellur það vel að kalla þá auðvald. Vald þeirra byggist á því að skuldsetja okkur hin og telja okkur trú um að allar skuldir skuli endurgreiða hvað svo sem það kostar. Jafnvel skuldir sem við stofnuðum ekki til og eru því ekki okkar og eru því ólögvarðar skuldir.

Skuldir sem við tókum á okkur byggðu á ákveðinni framtíðarsýn um ákveðnar tekjur. Núna í kreppunni höfum við ekki möguleika á því að standa í skilum. Ástandið er sambærilegt við uppskerubrest. Áður fyrr gat lánadrottinn tekið jörðina, búfénaðinn og jafnvel eiginkonu bóndans upp í skuldina. Jafnvel þó að bóndinn hefði aldrei sett konuna sem pant upp í skuldina.

Sama er upp á teningnum í dag í Evrópu. Heilu Evrópulöndin eru undir stjórn lánadrottna heimsins með aðstoð AGS, ESB og Seðlabanka Evrópu. Þar er gömul vísa endurtekin sem löndin í suðri hafa þurft að botna endurtekið. Allt sem lánadrottnana þyrstir í er tekið upp í skuldir; landsvæði, auðlindir og ríkisfyrirtæki. Til að samfélög manna geti endurgreitt sem mest af skuldum eru skattar hækkaðir og allur kostnaður minnkaður með niðurskurði. Sem aukabónus tekst stórfyrirtækjum að lækka launakostnað sinn í leiðinni.

Andy Storey lýsir þessu vel í þessari grein um ástandið á Írlandi. Af frásögn hans og annarra og fleiri og fleiri er það ljóst að ESB gengur erinda lánadrottna gegn hagsmunum almennings í Evrópu. Þess vegna er það augljóst að ESB er hertekið af bankaelítunni og öðrum lánadrottnum. Svipað ástand er víða annar staðar s.s. á Íslandi og í Bandaríkjunum. Eins og Íslendingar fengu að finna fyrir við síðustu Alþingiskosningar þá skipti litlu að skipta um ríkisstjórnarflokka því áfram héldu lánadrottnar að stjórna og innheimta.

Meðan almenningur sættir sig við skuldina eins og hundur hálsólina mun ekkert breytast.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur