Sunnudagur 27.11.2011 - 20:20 - FB ummæli ()

Hvers vegna skuldum við peninga

Einfalda svarið er að við tökum lán. Við tökum lán vegna þess að við höfum ekki nægjanleg verðmæti í augnablikinu. Þess vegna réttum við höndina inn í framtíðina og sækjum okkur verðmæti þaðan. Hluti af verðmætasköpun framtíðarinnar er því sett í pant og hún verður því minni þegar á henni þarf að halda.

Þar sem nánast allir skulda; einstaklingar, fyrirtæki og ríkissjóðir, er ljóst að núverandi verðmætaeign viðkomandi dugar ekki. Samkvæmt því lifa allir þessir aðilar um efni fram. Þess vegna er það borðleggjandi að minnka þarf kostnað.

Gáfulegast er að minnka þann kostnað sem hefur minnst almenn áhrif á viðkomandi. Einnig þann kostnað sem hægt er að minnka með einföldum aðgerðum frekar en sparðatíningi út um allt.

Peningar eru búnir til af einkabönkum og þeir hafa einkaleyfi á því. Til að fá peninga þurfum við að fá þá lánaða hjá bönkunum og síðan að endurgreiða þeim þá. Til þess að geta endurgreitt bönkunum fyrir lánið þurfum við að skapa verðmæti, þ.e. það sem sumir kalla að vinna. Sumir hafa reiknað það út að kostnaður þjóðfélaga vegna einkaleyfis bankanna á peningamyndun sé allt að 40%. Þar sem um 80% almennings ber þessa 40% byrði má draga þá ályktun að ef kostnaður vegna peningamyndunar yrði núllaður fyrir þennan hóp þyrftu viðkomandi einstaklingar að vinna 40% minna eða þá að taka minni lán.

Peningar voru stórkostleg uppgötvun á sínum tíma til að einfalda viðskipti með framleiðslu. Hægt var að geyma tímabundið verðmæti í peningum til að hægt væri að skiptast á vörum sem þegar var búið að framleiða. Bönkunum hefur tekist að snúa þessu við og núna þarf fyrst peninga áður en að framleiðslu kemur.

Þýskaland var að selja ríkisskuldabréf um daginn og það gekk ekki vel. Mörgum varð um og ó. Þýskaland er að reyna að verða sér út um peninga með því að selja ríkisskuldabréf. Það gengur þannig fyrir sig að fjármálaráðherra viðkomandi lands skrifar á pappír að hann lofi að endurgreiða þeim sem kaupir bréfið ákveðna upphæð, segjum 100 milljónir evra, auk vaxta. Þeir sem kaupa ríkisskuldabréf eru bankar. Þegar bankarnir hafa keypt ríkisskuldarbréfið þá búa bankarnir til peninga til samræmis við það. Þegar ríkisstjórnir hafa útvegað sér peninga á þennan hátt geta þær byggt skóla, sjúkrahús og slíka hluti.

Bankarnir búa að mestu til peninga úr engu. Þeir eru bara búnir til í tölvum. Þess vegna hafa bankarnir engan kostnað við kaup sín á ríkisskuldabréfum. Síðan þurfa skuldarar bankanna að vinna, framleiða til að endurgreiða bönkunum. Þess vegna er svo mikill auka kostnaður í þjóðfélaginu vegna einkaleyfis bankanna á framleiðslu peninga.

Bankarnir fá vexti ofaná lán sín á peningum sem þeir búa til úr engu. Framleiðslu sem þeir hafa einkaleyfi á að framleiða og allir verða að nota eins og vatn. Matsfyrirtækin sem allir vita að eru beint eða óbeint undir stjórn stóru bankanna skammta í raun bönkunum vaxtaprósentu. Ef land eða fyrirtæki er lækkað í mati þá þarf viðkomandi aðili að greiða hærri vexti. Á þann hátt aukast greiðslur til bankanna.

Þar sem bankarnir búa til peninga úr engu í tölvunum sínum er það með ólíkindum að fólk sé að velta fyrir sér einhverju öðru en þeirri staðreynd þegar kemur að bankastarfsemi. Hvaða máli skipta flókin hugtök um þessa starfsemi þegar við ættum að velta því fyrir okkur að bankar búa til vöru úr engu sem kostar þá ekki neitt og rukka til baka summuna sem er stimpluð á vöruna.

Fullvalda stjórnvöld í hverju landi fyrir sig geta og eiga að búa til sína peninga sjálf án nokkurs auka kostnaðar. Peningar eru bara verkfæri til að geyma þá verðmætasköpun sem við höfum þá þegar skapað. Ef þú sem verktaki grefur holu í jörðina þá er holan verðmætasköpun þín. Þú getur ekki tekið holuna þína út í Bónus og keypt fyrir hana mjólk og þess vegna þarft þú peninga. Peningarnir flytja verðmæti holunnar þinnar út í búð. Þegar peningarnir hafa flutt verðmætin þín og þú hefur fengið önnur verðmæti í staðinn þá hefur þú loksins fengið greitt fyrir holuna þína. Peningarnir voru bara millistig, flutningsmiðill. Verðmætin eru í holunni þinni og þeim vörum sem þú fékkst að lokum fyrir holuna þína. Þess vegna eru peningar í eðli sínu verðlausir.

Ef við viljum spara og minnka lántökur  þá er það fyrsta skrefið að taka einkaleyfið af bönkunum á því að búa til peninga okkar. Sú starfsemi er allt of valdamikil svo henni sé óhætt hjá einkafyrirtækjum. Eins og við höfum séð þá skapar einokun til peningamyndunar bönkunum slík völd að þeir stjórna löndum og heilu heimsálfunum. Er það þannig sem við viljum hafa það?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur