Föstudagur 06.01.2012 - 00:25 - FB ummæli ()

Inside Job og bónusinn

Það er smá titringur í pólitíkinni og spunameistararnir njóta sín með smá símtölum út og suður. Spunameistarapólitík hefur aldrei byggt neitt land upp og því er best að anda með nefinu og slaka á.

Myndin Inside Job sem var í RÚV í gærkveldi var mögnuð. Þrátt fyrir að ég hef grúskað mikið í kreppupólitík undanfarin ár þá virkaði myndin mjög sterkt á mig. Svo mjög að ég sofnaði ekki fyrr en um miðja nótt. Vald fjármálafyrirtækjanna er svo algjört að það setur að manni hroll. Sá hópur einstaklinga sem starfar innan þeirra og hagnast vel og vinna samhentir að því að ekkert ógni stöðu þeirra. Tengingin við kókaín fíknina innan heilans og peningaumsvifa var athyglisverð. Sjálfsagt er svipað svæði virkjað hjá sveitaómögum sem verða ráðherrar á Íslandi. Afleiðingin er frátenging raunveruleikaskyns og oftrú á eigin getu. Má sjálfsagt finna sjúkdómsgreininganúmer innan læknisfræðinnar sem passar.

Spurningin er hvort frasinn „skítlegt eðli“ sé ekki allt sem segja þarf.

Aftur að Inside Job. Vald fjármálafyrirtækjanna, bankanna, var augljóslega algjört. Bankarnir eru ríki í ríkinu og stjórna kjörnum fulltrúum okkar. Þess vegna er lýðræðið ekki lengur að virka. Bankarnir hafa aldrei verið kosnir til valda en stjórna þrátt fyrir það. Það vantar að einhver velti fyrir sér ástæðunni hvers vegna hafa bankarnir þessi völd. Ástæðan er sú að þeir búa til peningana fyrir okkur. Til að ríkissjóður fái peninga til að reka þjóðfélög þegar skatttekjur duga ekki þarf hann að fá peninga hjá bönkunum. Það gera ríkissjóðir með útgáfu ríkisskuldabréfa, þ.e. ríkið fær lán hjá bönkunum. Þar koma völd bankanna.

Smáspunameistarar íslenskrar pólitíkur sem rugga bátnum í dag sjá eflaust enga tenginu við Inside Job. Núverandi fjórflokkur hefur fylgt fjármálakerfinu, og öllu því sem því fylgir, að málum alla tíð. Hugsanlegt er að ný framboð eða sambræðingur annarra grasrótarafla krefjist siðvæðingar fjármálakerfisins. Slíka ógn þarf að kljúfa og kæfa í fæðingu.

Bónusinn til allra innblandaðra gæti minnkað….

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur