Föstudagur 06.01.2012 - 23:08 - FB ummæli ()

Skuldavandinn og „millistéttaraular“

Karl Sigfússon skrifar góða grein í Fréttablaðið 10. nóv s.l.. Hann kallar hana „ég er kúgaður millistéttarauli“. Þar lýsir hann tilveru sinni sem margir finna samsömun með því að meira en 7000 manns „læka“ hana. Hann lýsir baráttu sinni við bankahrun á Íslandi. Afleiðingar þess er minni kaupmáttur og aukin útgjöld. Fasteignin hans hefur lækkað að virði og lánin snarhækkað.

Það er hafið yfir allan vafa að hann og mjög margir aðrir sýndu ábyrga hegðun í viðskiptum sínum. Mannkynssagan kennir okkur einnig að það sem er að gerast á Íslandi er marg endurtekin saga.

Sú breyta sem skiptir máli og veldur bankakreppum er skortur á peningum. Það er aldrei skortur á mannafla, hráefni eða tækni. Bankar framleiða peninga og þess vegna er orsakanna að leita þar.

Á Íslandi og mörgum öðrum löndum kemur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn til skjalanna. AGS bannaði heildstæða almenna lausn á skuldavanda einstaklinga og fyrirtækja. Sjóðurinn taldi að ekkert fjárhagslegt svigrúm væri til staðar enda talar hann máli bankanna. Hann gaf fyrirmæli um einstaklingsmiðaða meðferð í dómsölum landsins. Lesa má um þetta í samstarfssamningum Íslands og AGS á heimasíðu sjóðsins. Þar kemur skýrt fram að sjóðurinn hefur algjört vald til að ákveða allt sem við kemur fjármálum Íslands. Sú stefna sem rekin hefur verið á Íslandi er ekki hugafóstur einhverra stjórnmálahreyfinga á Íslandi. Samstarf við sjóðinn byggist eingöngu á því að hér séu stjórnvöld sem eru reiðubúin til að fylgja fyrirmælum hans og núverandi ríkisstjórn tók auðsveip við því hlutverki.

AGS lagði megin áherslu á að endurreisa bankana og kostnaðurinn við þá endurreisn lendir á öxlum almennra lántakenda og það er sú staða sem Karl er að lýsa. Síðan er blóðugur hanaslagur á bak við tjöldin við að þóknast bönkunum til að fá sérmeðferð. Þar ræður klíkuskapur örlögum manna og í þann klúbb er Karli og fleirum ekki boðið .

Annað sem skiptir máli er að hluti þjóðarinnar skuldar ekki neitt og virðist reiðubúinn að horfa á eftir samlöndum sínum í skuldafenið. Auk þess eru stuðningmenn núverandi ríkisstjórnar reiðubúnir til að leita uppi hvaða skýringu sem er til að samþykkja með sjálfum sér að jöfnuður og réttlæti felist í stefnu AGS.

Sagan kennir okkur einnig að til að breyta þessu ástandi þarf róttækar aðgerðir. Sú alróttækasta er mikil og almenn hugafarsbreyting hjá almenningi. Almenningur verður að taka afstöðu og til þess þarf hann að kynna sér málin. Það flækir stöðuna á Íslandi að hluti þjóðarinnar hugsar mikið um að koma Íslandi inn í ESB og á meðan hugsa þeir ekkert róttækt því það gæti ógnað ESB aðild. Hvernig svo sem það fer allt saman þá kennir sagan okkur að þegar við erum orðin nægjanlega svöng þá verður bylting. Það sem er virðingaverðast við skrif Karls er að hann er að reyna að höfða til vel menntaðrar og læsrar þjóðar í þeirri von að hún skilji hvað er að gerast en æði ekki út á torg síðar meir banhungruð og brjáluð þegar ekkert er eftir. Þá breytist reyndar margt en of seint því þá eiga lánadrottnar allar eigur okkar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur