Föstudagur 24.02.2012 - 20:35 - FB ummæli ()

Peningaprentun og skuldir heimilanna

Algengast er að peningar séu búnir til af tveimur aðilum í þjóðfélaginu. Ríkið/Seðlabankinn býr til seðla og mynt sem við höfum í veskinu til daglegs brúks. Það er eingöngu um 1-5% af öllum peningum. Hinn hlutinn um 95-99% er búinn til af bönkum.

Framleiðsla seðla og myntar stjórnast af þörf þjóðfélagsins fyrir peninga í þessu formi. Seðlabankanum ber skylda til að sjá til þess að skortur á seðlum og mynt hamli ekki eðlilegum viðskiptum í þjóðfélaginu.

Bankar hafa einkaleyfi á því að búa til aðra peninga, þ.e. um 95% allra peninga í umferð. Það má kalla þá rafræna peninga. Til að banki geti búið til peninga verður einhver að taka þá að láni hjá bankanum. Banki getur ekki bara búið til peninga án þess að einhver taki þá að láni hjá bankanum. Þess vegna eru nánast allir peningar skuld einhvers. Ef við aukum peninga í umferð þá eykst skuldin.

Ef ríkið þarf peninga umfram skatttekjur þá þarf að gefa út ríkisskuldabréf. Ríkið skráir einhverja upphæð á bréfið, segjum 100 milljarða, og síðan „kaupir“ bankinn bréfið. Bréfið er bara loforð til bankans um að ríkið muni endurgreiða upphæðina til baka til bankans. Síðan er samið um hversu mörg ár ríkið fær til þess og hverjir vextirnir verða. Það er bankanum í sjálfsvald sett hvort hann kaupir ríkisskuldabréfið. Dæmi er um að ríki hafi átt í vandræðum með að fjármagna sig þegar bankar hafa verið tregir til að kaupa ríkisskuldabréf. Auk þess hafa bankar stundum hækkað vextina svo mikið að ríki hafa ekki haft efni á þetta háum vöxtum og þess vegna ekki getað fjármagnað sig.

Þegar bankinn er búinn að fá ríkiskuldarbréfið, sem er í raun bara skuldaviðurkenning ríkisins, þá framleiðir bankinn peningana og leggur þá inn á bankabók hins opinbera.

Þess vegna eru það bankarnir sem „prenta“ peninga. Þeir ráða magni eða skorti peninga í umferð. Þeir ákveða hversu mikil verðbólga er í samfélaginu. Starfsemi þeirra ákvarðar skynsemina í lánamálum, ef hún er ábyrg gengur allt vel. Reynsla liðinna 300 ára með endurteknum bólum og hrunum segir okkur að peningaframleiðsla bankakerfisins hefur verið mjög óábyrg.

Þegar haft er í huga að bankar búa til peninga úr engu, því ekki lækkar í neinni bankabók þó mikið sé lánað út, er augljóst að þetta fyrirkomulag er geggjað. Að bankar hafi einkaleyfi á peningamyndun og stjórni þar með magni þeirra í umferð á hverjum tíma gerir kjörna fulltrúa okkar algjörlega valdalausa og lýðræðið hreint klám.

Ef bankar búa til peninga úr engu getur ríkið gert það líka. Verðbólguáhrifin hafa ekkert með það að gera hver býr til peningana og þess vegna eru peningar búnir til af bönkum ekkert minna verðbólguhvetjandi en ríkisins. Þess vegna ætti ríkið að geta búið til peninga úr engu eins og bankarnir.

Þess vegna getur ríkið „prentað“ 200 milljarða og greitt inn á skuldir heimilanna. Þeir peningar yrðu búnir til án skuldar öfugt við bankapeninga. Það myndi valda auknum kaupmætti og því auknum viðskiptum og ef til vill verðbólgu. Það sem er mest um vert að skaðinn af gjaldþrotum allra þessara heimila hyrfi og yrði ómæld framleiðsluaukning fyrir samfélagið(aukinn hagvöxtur) sem ynni gegn verðbólgunni.

Þetta hefur verið gert áður, virkar og er flestum til góðs. Það skiptir ekki höfuðmáli hvernig við skilgreinum peninga því hægt er að rífast um það í þúsund ár. Þetta er bara siðferðileg spurning hvernig við ákveðum að nota peninga.

Sennilega getum við skilgreint borðhníf á mismunandi vegu en það er alltaf siðferðileg ákvörðun hvort við skerum matinn okkar með honum eða drepum mann með honum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur