Föstudagur 02.03.2012 - 23:23 - FB ummæli ()

Verðbólga; peningaprentun eða skuldasúpa

Flest allar tegundir af hagfræðingum telja verðbólgu orsakast af allt of mikið af peningum að eltast við allt of fáar vörur.

Þar sem allir peningar eru búnir til sem skuld þá eykst skuldin nákvæmlega jafn mikið og peningamagnið. Þess vegna erum við með tvær jafngildar stærðir, magn skuldar og magn peninga í umferð. Hvort er líklegra til að valda verðbólgu?

Veltum þessu aðeins fyrir okkur.

Við erum með annars vegar framleiðendur sem gera allt til að geta framleitt vörur án taps og hins vegar kaupendur sem vilja kaupa án þess að fara í mínus. Þarna á sér stað stöðug barátta. Þetta er krafturinn sem þrýstir upp vöruverði og launum. Kjarninn í þessu stríði er skortur á kaupmætti.

Þegar nánast allir peningar eru búnir til sem skuld og þegar sömu peningar eiga að vera miðill viðskipta og sömu peningar eiga einnig að vera notaðir til endurgreiða skuldir til bankanna, þegar allir upplifa stöðugan skort á peningum samfara því að allar hillur eru fullar af vörum, stenst þá þessi hugsun að of mikið sé af peningum að eltast við allt of fáar vörur, að það orsaki verðbólgu?

Þar sem peningar eru búnir til sem skuld hefur þá ekki aukið peningamagn í umferð í för með sér jafn mikla aukingu í skuldsetningu? Það getur því ekki verið skynsamlegt hjá góðum fræðimönnum að láta sem skuldin sé ekki til og einblína bara á peningamagnið, eða hvað?

Ef mið er tekið af vöruframboði þá er það mun meira en framboð af peningum til að kaupa allar þessar vörur og því hefði verðbólga átt að hverfa fyrir löngu.

Ef kaupmaðurinn vill eingöngu soga til sín alla umframpeninga með hækkun á vörurverði hvers vegna eru þá ekki bankabækur ríka mannsins líka tómar? Hvers vegna hækkar þá ekki verðið á lúxusvörum þangað til að bankabækur ríka mannsins eru tómar? Hvers vegna er verðbólga í bólum þegar nægjanlegt vöruframboð ætti að soga til sín alla umframpeninga? Hvers vegna er verðbólga í kreppum?

Er það ekki svo að þegar bólan kemur þá hafa þau fyrirtæki sem hafa lifað af kreppuna uppsafnaða skuld sem þarf að endurgreiða. Þá hækka allir vöruna sína til að geta endurgreitt skuldir sínar til að komast hjá gjaldþrotum. Í kjölfarið verður verðbólga vegna skulda fyrirtækjanna sem verða að standa í skilum.

Í kreppum er ekki allt fljótandi í umframpeningum en þrátt fyrir það er verðbólga. Þegar kreppan dregst á langinn verða fyrirtæki að hækka vöruverð, eftir aðhald, til að lifa af. Hér er það skuldin sem er í aðalhlutverki.

Í bólum eru meiri peningar í umferð en ekki endilaga hjá hverjum einstakling því það eru fleiri einstaklingar sem fá vinnu. Hver einstaklingur hefur því ekki svo mikið aukinn kaupmátt, heldur er aukinn fjöldi þeirra sem hefur einhvern kaupmátt sem eykur söluna.  Fleiri fyrirtæki hafa möguleika á því að taka lán. Einstaklingar taka stöðugt meiri neyslulán sem bendir til þverrandi kaupmáttar sem fólk bætir sér upp með lántökum. Skuldir einstaklinga og fyrirtækja minnka tekjur framtíðarinnar hjá viðkomandi og þess vegna verður kaup og vöruverð að hækka, vegna endurgreiðslu skulda. Þess vegna er það skuldin sem rekur áfram hækkanir sem við metum sem verðbólgu.

Framleiðandi getur samið við birgja og starfsmenn um að lækka kostnað sinn við framleiðsluna meðan illa árar. Ef allir kostnaðaliðir fyrirtækja og heimila lytu svipuðum kjörum væri hægt að lækka útgjöld nánast niður í núll. Aftur á móti að fara í bankann og reyna það sama er vonlaust. Þess vegna er skuldin flöskustúturinn í hagræðingarmöguleikum fyrirtækja og það sem gerir út af við þau. Þess vegna er það skuldin sem veldur nauðsyn þess að framleiðandi verður að hækka vöruverð. Sama á við heimilin. Allt er sveigjanlegt í rekstri nema skuldin við lánadrottna.

Peningakerfi þar sem peningar eru búnir til sem skuld endar í blindgötu. Peningar búnir til án skuldsetningar ykju kaupmátt, framleiðslu og gerðu allt hagkerfið mun sveigjanlegra til að mæta þörfum almennings frekar en lánadrottna.

Er ekki skuldin frekar meinið en magn peninga?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur