Sunnudagur 11.03.2012 - 00:14 - FB ummæli ()

Breið samstaða eða magafylli-why should I care

Þráin að hafa allt í föstum og öruggum skorðum er mikil. Flestir vilja og kjósa sér einfalt líf. Heimili, fjölskyldu og kannski börn. Nærumhverfið er viðmiðið og allt er gert til að rétlæta tilvist þess. Örugg vinna og heimili samfara unaðsstundum í faðmi fjölskyldu og vina, eða bara að horfa á bolta yfir ölglasi samfara umræðum um veðrið eða nýjustu slúðursögum fræga fólksins er allt sem þarf til að gera manneskju hamingjusama. Þessi tilvera og tilvist er ekki talin samningsatriði því þegar hún hrynur verður bylting. Til að vera nákvæmari þá verður bylting þegar viðkomandi aðilar geta ekki satt hungur sitt.

Þess vegna er um að gera að framkvæma ekki neitt sem getur ógnað þessari tilveru. Þess vegna er um að gera að kynna hugmyndir sem styrkja viðkomandi tilveru í sessi. Þráin yfir stöðugleika í eigin nærumhverfi er manninum svo rík að almenn skynsemi hefur ekki einu sinni áhrif þar.

Í Grikklandi eiga sér núna stað skelfilegir atburðir. Við segjum að Grikkir verði að taka sig saman í andlitinu og greiða sínar flatskjárskuldir. Þegar Björgólfur gamli sagði þetta á Íslandi um okkur Íslendinga þá var okkur misboðið. Kostnaðurinn við að endurreisa íslenska bankakerfið varð um 64% af einni þjóðarframleiðslu okkar og sá kostnaður leggst á íslenska skattgreiðendur. Ég þarf ekki að minna á það að bankarnir voru allir einkabankar og komu Íslendingum ekkert við í góðærinu því þá fengu bara útvaldir bónusana en ekki við.

Það sama er að gerast í Grikklandi nema þar er gengið mun harðar fram. Það er sagt að lánadrottnar Grikkja taki mikið á sig en það er ekki svo. Nouriel Roubini, heimsfrægur hagfræðingur skrifar grein í Financial Times þar sem hann bendir á að í raun eru lánadrottnar Grikkja að koma vel frá sínu. Öðru máli gegnir um almenning í Grikklandi. Starfsbróðir minn í Grikklandi hefur ekki sömu sögu að segja. Stöðugt fleiri frásagnir af sjálfsbjargarviðleitni einstaklinga og hópa í Grikklandi bera þess merki að miklar hörmungar ganga núna yfir grísku þjóðina. Allar þessar hörmungar eru réttlættar með því að lánadrottnar verði að fá sitt. Við skulum ekki gleyma því að þeir fjárfestu sitt umfram fjármagn sem þeim var ekki nauðsyn og hitt að mest af skuldum gríska ríkissins í dag hefur aldrei komið grískum skattgreiðendum til góða.

Óréttlætið er svo himinhrópandi að öllum venjulegum mönnum ætti að vera misboðið og samfara því ætti krafa um réttlæti að fylgja í kjölfarið. Vegna reynslu íslensks almennings í hruninu okkar haustið 2008 þá ættum við að finna verulega til með Grikkjum. Við ættum að skilja ofurvald Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem neyddi okkur til að endurreisa þrjá íslenska einkabanka á okkar kostnað auk þess sem nýju bankarnir fengu veiðileyfi á skuldsettan íslenskan almenning með samþykki spilltra stjórnvalda. Ergó, eins og í Grikklandi.

Þrátt fyrir að samhengið ætti að vera augljóst og vitræn hugsun ætti að leiða til þess að menn fylktu liði til að berjast með evrópskum samborgurum sínum gegn kúgurum þeirra þá sitja menn heima. Til að vernda nærumhverfi sitt og öryggi litlu einingarinnar sem viðkomandi tilheyrir þá velur hann frekar að leiða þetta hjá sér og hlusta á fréttaskýringar bankavaldsins sem hefur tögl og haldir í helstu fjölmiðlum heimsins. Þeir tala stöðugt um lata Grikki eins og Bretar sem sögðu haustið 2008 að Íslendingar greiddu aldrei skuldir sínar þrátt fyrir að við höfðum alltaf staðið í skilum. Heimurinn trúði pressunni og taldi okkur vanskilamenn. Eins trúum við því að Grikkir séu latir og verðskuldi meðferðina sem þeir fá núna.

Andstaðan við að rugga okkar eigin bát til að hjálpa öðrum veldur því að við kjósum frekar að horfa á eftir öðrum manneskjum ofaní hafið en að eiga á hættu að litli báturinn okkar sökkvi. Að sjá ekki heildarmyndina kemur í veg fyrir samtsöðu alls almennings en slík samstaða myndi breyta tilverunni á þann veg að allir sætu í öruggum bátum.

Ef allir aðilar sjá heildarmyndina á Íslandi og sameinast sem einn maður gegn fjórflokknum, spilltri stjórnsýslu og bankavaldinu mun Ísland verða dæmi öðrum til eftirbreytni. Slíkir möguleikar skapa íslenskri alþýðu mikla ábyrgð og skyldur. Eftir sem áður mun sagan sennilega endurtaka sig hér sem annar staðar að meðan eitthvað fyllir magann verður ekki um slíka samstöðu að ræða.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur