Föstudagur 30.03.2012 - 22:38 - FB ummæli ()

Þau og við hin

Það er stöðugt vaxandi umræða um að gjaldeyrishöftin fari ekki saman með inngöngu í Evrópusambandið. Þess vegna verði að afnema þau fyrir inngöngu. Nefnd manna situr núna og reynir að finna lausn á málinu. Önnur nefnd á einnig að huga að framtíðar gjalmiðilsmálum Íslendinga.

Þau sögðust vera á móti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en unnu svo með honum af slíkri alúð að þau eru í miklu uppáhaldi í höfuðstöðvum nýfrjálshyggjunnar.

Þar sem Ísland getur ekki tekið upp evru nema að ganga í ESB og getur ekki gengið í ESB nema að afnema gjaldeyrishötin er niðurstaðan augljóslega sú að gjaldeyrishöftin verða afnumin.

Þau sögðust ætla að reisa skjaldborg um heimili landsmanna en hafa matreitt skuldug heimili ofaní bankana.

Reynsla margra annarra þjóða af því að afnema gjaldeyrishöft er slæm. Innilokað fjármagn fer út jafnvel með miklum afföllum. Afleiðingin gæti orðið sú að allur gjaldeyrisvarasjóður Íslands yrði notaður og breyttist þannig í varanlega skuld íslenskra skattgreiðenda.

Þau lofuðu okkur nýrri stjórnarskrá en klúðruðu því að hætti nýliða í pólitík, áratuga reynsla í þingstörfum hefði átt að duga ef viljinn hefði verið til staðar.

Samfara útstreymi fjármagns myndi íslenska krónan hrynja. Í kjölfarið kæmu miklar hækkanir á öllum vörum og aukin verðbólga myndi hækka lánin okkar. Enn fleiri heimili yrðu gjaldþrota. Enn fleiri næðu ekki endum saman.

Þau lofuðu okkur algjörri uppstokkun í stjórn fiskiveiða þjóðinni til hagsbótar en hafa samið frumvarp sem geirneglir mannréttindarbrotin og afhendir auðlind þjóðarinnar fáum útvöldum til langs tíma.

Tillögur hagfræðinga eins og Lilju Mósesdóttur um sköttun á útstreymi fjármagns samfara losun gjaldeyrishafta eru ekki teknar til greina. Þær ráðstafanir gætu hægt verulega á útstreyminu og samfara skapað tekjur og þannig snúið við hinum illu áhrifum.

Þau leyfðu sölu á HS Orku. Þau reyndu ekki að koma í veg fyrir að Líbíumenn yrðu sprengdir í tætlur.

Að aflétta gjaldeyrishöftunum myndi gagnast vinum þeirra, þ.e. fjármagnseigendum sem þau hafa þjónað af samviskusemi síðan þau komu til valda. Þá væru Íslendingar endanlega komnir á hnén og gætu ekki annað en gengið í ESB. Þar með yrðum við yfirskuldsett þjóð eins og Grikkir og lytum ákvörðunum Brussel í fjármálum okkar. Þar með yrðum við að selja auðlindir okkar eins og Grikkir eru að gera núna.

 

Hvers vegna ættu þau ekki að lyfta gjaldeyrishöftunum með fyrrgreindum afleiðingum fyrir almenning ef mið er tekið af framgöngu þeirra hingað til. Þau hafa verið þjónar nýfrjálshyggjunnar hingað til og fara tæplega að breyta því.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur