Föstudagur 06.04.2012 - 12:07 - FB ummæli ()

Titanic og stjórnarskráin

Núna er byrjað að endursýna kvikmyndina Titanic og núna fáum við að njóta hennar í þrívídd. Það er margt merkilegt við þessa sögu, þ.e.a.s. af skipinu, ástarsagan er krydd í tilveruna fyrir áhorfendur. Þrátt fyrir að vandað hafi verið til smíði skipsins og öll hönnun verið góð þá er það á endanum ákvörðun eins manns, skipstjórans sem ræður úrslitum. Sennilega var það hann sem ákvað hraðann sem gerði áreksturinn við ísjakann svo banvænan.

Næsta sumar ætlar íslenska þjóðin að kjósa sér forseta. Einn mann eða konu sem ræður öllu um hvernig viðkomandi bregst við þeim hættum sem steðja að íslenskri þjóð. Sumir frambjóðendur segjast ætla að láta stýrimennina ráða för en aðrir ætla að spyrja alla um borð hvað þeim finnst. Ef skipstjórinn hefði spurt farþegana hvort þeir vildu sigla hægt og af öryggi frekar en að slá met hefðu þeir mjög sennilega valið öruggari kostinn. Þar sem þeir voru allir um borð í sama skipinu og voru bundnir órjúfanlegum böndum örlögum farkostsins þá eru allar líkur á því að þeir hefðu valið af skynsemi. Þar sem allir eru a sama skipinu, þar sem allir eiga jafnmikið undir því að ná höfn þá er í raun fáranlegt að undanskilja einhverjar ákvaðanir frá hópnum.

Margar þjóðir og ekki síst við Íslendingar eigum okkar breisku minningar af foringjaræði. Tveir menn, yfir kaffibolla, settu alla íslensku þjóðina í stríð við írösku þjóðina á fölskum forsendum og Hitler réðst á allan heiminn, sennilega yfir dísætum riesling sem fraus árið áður. Faríserarnir Steingrímur og Jóhanna, í skiptum fyrir ráðherralífeyri, matreiddu þjóð sína í kjaft bankaelítu heimsins í heilögu samsæri með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Beint lýðræði hefði hafnað öllum þessum kostum.

Þeir sem vistuðust á þriðja farrými á Titanic voru senniega ekki með hugann við þjóðaratkvæðagreiðslu um jöfnun kjara á skipinu. Þrátt fyrir það höfðu þeir fullan hug á því að bæta kjör sín og þá sennilega með því að vinna sig upp með tímanum. Þar sem hönnun á þeim viðmiðum og gildum sem réðu för voru ákveðin af fámennum hópi vissu þeir á þriðja farrými ekki að það voru engir björgunarbátar fyrir þá.  Þess vegna skiptir tíminn máli. Opin og lýðræðisleg umræða hefði komið í veg fyrir skort á björgunarbátum. Er það ekki grundvöllurinn fyrir gagnrýni Landsdóms og þjóðarinnar á framgöngu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í aðdraganda hrunsins. Þau voru, eins og Titanic, á hraðferð til New York í Öryggisráðið á fyrsta farrými og gáfu ekki gaum að úrræðum fyrir okkur á því þriðja.

Í raun var það stjórnandi skipafélagsins Ismay og eigandinn J.P.Morgan sem ákváðu hraðann en skipstjórinn hlýddi. Risabankinn J.P Morgan Chase var síðan 96 árum síðar ráðgefandi íslenskum seðlabanka í aðdraganda kreppunnar og eins og sagan vill endurtekur sig í sífellu enduðum við líka á ísjaka.

Núna hefur íslenska þjóðin verið í sjóprófum síðan 2008.

Í hundruðum greina og bloggskrifa hafa orsök og afleiðingar verið greindar. Lausnirnar ljósar enda vandamálið nokkuð einfalt. Meðan fyrsta farrými ræður breytist ekkert og því er það algjör forsenda fyrir framgangi þeirra umbóta sem er þörf á,  að ná völdum. Almenningur þarf að ná völdum. Þess vegna verður fjórflokkurinn að gefa eftir völdin til okkar.

Að einbeita sér að einhverjum öðrum markmiðum er tímasóun.

Snilld fyrsta farrýmisins er að skipta ”almenningi” í annað og þriðja farrými til að sundra honum.

Staða íslensk almennings er einstök í dag og setur því auknar skyldur á herðar honum. Við fengum tækifæri til að semja nýja stjórnarskrá sem eykur vald almennings og kemur auðlindunum í óskipta eigu okkar allra. Engin önnur þjóð í heimi hefur þennan möguleika. Ef við sameinumst um að koma völdunum í hendur þjóðarinnar höfum við gefið tóninn, við höfum þá gefið orðinu lýðræði merkingu á nýjan leik. Þegar þjóðin fær verkfærið skapast áhugi og ástríða fyrir siglingaleiðinni. Þá mun þjóðin ákveða kjör sín gagnvart lánastofnunum, útdeilingu á nýtingu auðlinda auk þess að innleiða réttlæti og siðvæðingu allra farrýma. Í því felst að hafna leiðsögn sérhagsmunaaðila fyrsta farrýmis og hleypa þjóðinni að stýrinu. Sú byltingakennda nýbreytni mun umheimurinn taka eftir hjá lítilli þjóð. Margir erlendir borgarar fylgjast með veikburða tilraun okkar og bíða því spenntir eftir hvernig við spilum úr spilunum. Sú staða eykur svo um munar ábyrgð okkar.

Að láta eiganda og stjórnaformann segja skipstjóranum fyrir verkum nú sem fyrr mun enda á næsta ísjaka. Hvernig væri að skrifa söguna frekar en að endurtaka hana í sífellu, höfum við hugrekki til þess?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur