Sunnudagur 08.04.2012 - 22:54 - FB ummæli ()

Ég leik mér ekki við deppur…

Ég hef oft velt fyrir mér þessum spurningum Rakelar:
„Hvers vegna hefur almenningur ekki brugðist við með afgerandi hætti? Hvers vegna hefur hann ekki flykkt sér betur á bak við þá fáu sem hafa barist fyrir hann á undanförnum árum? Hvers vegna brýtur hann sig niður í fylkingar gegn hagsmunum sjálfs sín? Hvers vegna treystir hann enn þá á sundurlyndisraddir, falsspámenn og málsvara hvers kyns forréttindahópa? “
Lilja Mósesdóttir spyr á FB síðu sinni.

Þegar stórt er spurt er ekki laust við að tungan þvælist í munninum og fátt verði um góð svör en ég ákvað samt að reyna.

Áhugaleysi almennings er skiljanlegt en er að engu síður slæmt. Almenningur kýs aftur og aftur. Nýfrjálshyggju stjórnir Davíðs keyrðu landið í þrot og ekki tók betra við þegar ”vinstri” stjórnin tók við 2009. Almenningi finnst hann hafi ekki áhrif og því tilgangslaust að skipta sér af. Röng niðurstaða því í raun ætti almenningur að taka enn meiri þátt. Spunameistarar sjá til þess að almenningur fylgist með málum sem skipta ekki máli og þreyta almenning þannig að hann hættir að fylgjast með ”þrasinu”.

Reyndar er það alveg rétt niðurstaða hjá almenningi að kjörnir fulltrúar hafa í raun engin völd. Það eru peningaöflin sem hafa völdin.

Auk þess hefur mikið verið gert til að draga athygli almennings frá pólitískri umræðu. Það er gert með sjónvarpsglápi á sápur og íþróttaviðburðum sem skila engu öðru en drunga og síþreytu(ópíum fyrir fólkið).

Skortur á samstöðu milli hópa virðist vera reglan en hitt. Sundurlyndið einangrast ekki við Ísland heldur er vel þekkt út um allan heim. Algengt er að stefna sé mótuð af litlum hópum og hún talin vera stóri sannleikur og lítill afsláttur gefinn ef til hugsanlegs samstarfs kemur. Stundum eru sterkir einstaklingar sem vilja ekki missa forustuhlutverkið til einshvers annars. Andstæðingunum( 4flokknum) tekst stundum að sverta einhvern hópinn og þannig gera öðrum ókleift að vinna með honum jafnvel þó að engin fótur sé fyrir ásökunum. Einstaklingar innan hvers hóps hafa oft skoðanir á öðrum einstaklingum innan annarra hópa, skoðanir sem oft eru byggðar á misskilningi eða fordómum og koma því í veg fyrir að menn ræði saman. Ef hóparnir settust bara niður og ræddu saman myndi mjög mörg þessara vandamála leysast og koma til leiðar meiri samvinnu. Sjálfsagt er um einhverja spéhræðslu að ræða eða þá að menn óttast að þeim verði hafnað. Til að slíkar umræður milli aðila öðlist eitthvert vægi þurfa þær að vera formlegar. Að reyna eitthvað hvísl á göngum er ekki gæfulegt.

Að ekki sé meiri áhugi á sameiningu gefur sterklega til kynna að ekki sé fullur skilningur innan hópanna hversu mikilvægt sé að sameinast. Þrátt fyrir að öllum ætti að vera ljóst að sameinuð sigrum við og sundruð föllum við, þá virðist sem innihald þessara orða sé ekki öllum ljós því annars væri ekkert sundurlyndi. Auk þess er möguleiki að allir hugsi sem svo að aðrir eigi að sameinast ”mínum” hópi. Grunnurinn að þeirri hugsun er sennilega sá að ég sé merkilegri en aðrir, sú hugsun er röng og um leið slæmt vegarnesti út í lífið. Kannski vilja einhverjir ekki sameiningu því þeir vilja ekki að baráttan beri sigur því þeim finnst svo gaman í baráttunni-hvað veit maður?

Þegar gluggað er í söguna verður maður ekki bjartsýnn. Hitler fékk góða styrki frá peningamönnum og m.a. frá Ford í Detroit. Lenin og Trosky fengu líka peningasummu, stundum talað um kistu fulla af peningum sem þeir tóku með sér í lestina til Rússlands. Á hinum endanum virðist sem byltingar verði ekki fyrr en stærsti hluti almennings sé glorsoltinn, þ.e. þá er það hungurtilfinningin sem sameinar menn og það eina sem hópurinn skilur sem sameiningartákn. Hljómar ekki mjög intellegent.

Þess vegna virðast vera tveir pólar á byltingum, mútufé eða hungur. Þeir sem reyna peningalausir að höfða til skynseminnar hjá almenningi sem ekki er glorsoltinn ná illa árangri. Almenningur vill gjarnan að nýju sem og gömlu flokkarnir leysi vandamálin fyrir sig en að einhver djúp vitræn umræða verði og að almenningur hópist í pólitískt starf virðist ekki gerast.

Vangaveltur Lilju eru mjög mikilvægar og margir velta þeim fyrir sér bæði hér heima sem og annar staðar. Fjármálaöflin nýta sér allt sundurlyndi til að deila og drottna. Skoðanamyndandi áróður þeirra í skjóli fjármagns gerir þeim kleift að halda röngum upplýsingum að fólki, halda réttum upplýsingum frá fólki þ.e. að móta skoðanir fjöldans. Fjármálaöflin eiga oft stóra fjölmiðla í þessum tilgangi. Gegn þessu ofurafli fjármagnsins er eingöngu til ein lausn og það er raunveruleg samstaða allra þeirra sem vilja breyta núverandi kerfi almenningi til hagsbóta.

 

…þegar ég var fimm ára gutti vildi stelpa leika við mig, ég snéri upp á mig og svaraði með þjósti, ég leik mér ekki við deppur, mikið var það nú gott að ég klikkaði á þessari sannfæringu minni..

 

Grein Rakelar.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur