Fimmtudagur 03.05.2012 - 19:56 - FB ummæli ()

Auður og auðlindir

Nýlendustefna er ekki ný á nálinni. Öllum hugsandi mönnum má vera ljóst að Kínverjar eru að nota auð sinn til að nema land sem víðast. Að leigja land til 40 ára er ekkert annað en að samþykkja nýlendustefnu stórveldis. Hlutafélag er hægt að kaupa seinna í ró og næði, í pörtum eða í heilu lagi. Þegar ísinn er brotinn er auðvelt að halda áfram á sömu braut og þá verður ekki mikið eftir handa okkur Íslendingum, okkur sem eigum landið.

Auður Kínverja er skapaður með hefðbundunum kapítalískum aðferðum og almennu arðráni, auk vinnuþrælabúða(sweat shops). Þess vegna er það svo einkar passandi að vinstri Ríkisstjórn á Íslandi með verkalýðsfrömuði í fararbroddi kokgleypi blóðpeninga fólksins sem neytt var í ánuð til að eiga í sig og á, án þess svo mikið að svelgjast á.

Núverandi Ríkisstjórn virðist mjög umhugað um að tryggja auðvaldinu aðgang að auðlindum okkar til allt að 40 ára. Sjávarauðlindin á einnig að vera kvótagreifum aðgengileg án ónæðis í 20 eða 40 ár.

HS orka og sú auðlind á Reykjanesinu sem við höfum skapað og þróað sjálf er smám saman að renna okkur úr greipum beint fyrir framan augun á vinstri ríkisstjórninni okkar.

En annar þjóðarauður sem fólgin er í fasteignum landsmanna hefur ríkisstjórnin leyft lánastofnunum að soga til sín.

Sömu sögu er að segja um mannauðinn sem flýr land en samtímis lækka atvinnuleysistölur valdstjórninni til frama.

Hugsjónir þeirra hafa glumið í eyrum okkar árum og áratugum saman; verkalýðurinn, þjóðin og landið okkar. Hvenær seldu þeir sig eða var þeim aldrei alvara?

Almenningur verður að ná áttum og takmarka með öllum ráðum gerræðislegt framferði spilltrar valdstéttar á Íslandi. Nýtt þing og nýja stjórnarskrá ekki seinna en í dag!

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur