Laugardagur 19.05.2012 - 00:38 - FB ummæli ()

Prófkvíði Alþingismanna

Ég var að byrja í sumarfríi í dag og fátt er betra, milli hefðbundinna heimilsverka, en að hlusta á beina útsendingu frá Alþingi. Ein af þingnefndum Alþingis Íslendinga hefur dottið það í hug að spyrja íslensku þjóðina nokkurra spurninga um drög að stjórnarskrá sem unnin hefur verið af fólki sem þjóðin kaus til þess verks á sínum tíma. Spurningarnar eru eftirfarandi:

1. Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá

eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?

Merktu í reitinn fyrir framan þann valmöguleika sem þú kýst.

  • Já, ég vil að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá

eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga.

  • Nei, ég vil ekki að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri

stjórnarskrá.

  • Tek ekki afstöðu.

 

2. Einnig ertu beðin(n) um að svara nokkrum efnislegum spurningum um nýja stjórnarskrá.

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði Já -Nei -Tek ekki afstöðu

 

1. náttúruauðlindir lýstar þjóðareign?

2. ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er?

3. persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

4. ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

5. ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

ef já, hve hátt finnst þér að þetta hlutfall ætti að vera?

  • 10%
  • 15%
  • 20%

 

Það er virðingavert þegar háttvirt Alþingi gerir svo lítið að spyrja pöpulinn hvað honum finnst. Það er í raun stílbrot og virðist fara fyrir brjóstið á mörgum.

Við vitum öll sem könnumst aðeins við söguna að öfl innan fjórflokksins ætla aldrei að breyta núverandi stjórnarskrá. Auk þess eru sumir þingmenn haldnir þeim misskilningi að þeir séu sérvaldir af almættinu til að semja stjórnarskrá. Svipað heilkenni og sumir kóngar þjáðust af hér á öldum áður. Í stjórnarskrá eru verklagsreglur þjóðarinnar um hvað Alþingismönnum er leyfilegt eða ekki. Venjulega semja nemarnir ekki skólareglurnar.

 

Umræðan virðist snúast mikið um hvernig þjóðin muni svara þessum spurningum. Það er í raun bara ein lausn til á því vandamáli og það er að vinna úr prófsvörunum þegar prófinu er lokið. Frekari umræða á hinu háa Alþingi mun aldrei færa okkur neitt nær svarinu.

 

Það sem er verra er að mörgum þingmanninum er það hulin ráðgáta hvernig almenningur á að geta skilið spurningarnar. Ef almenningur skilur ekki þessar spurningar mun hann að sjálfsögðu eiga erfitt með að svara þeim. Hver er svo sem sjálfum sér næstur en þrátt fyrir að ég sé rétt tæplega meðalgreindur þá tel ég mig bæði skilja og vera færan um að svara þessum spurningum.

 

Eftir að hafa hlustað í dag á umræðuna virðist ótti þingmannanna við það að við götum á prófinu og svörum rangt vera raunverulegur því þeir ræða það aftur og aftur og aftur. Ég ráðlegg þeim þó eindregið að láta slag standa og síðan að nota sumarið til að vinna bót á kvíðaröskun sinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur