Föstudagur 25.05.2012 - 00:59 - FB ummæli ()

Catch-22

Öll þessi umræða undanfarna daga um drög að nýrri stjórnarskrá, þ.e. ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og hins vegar Evrópusambandið hafa í raun verið mjög upplýsandi. Tilfinningin sem eftir situr er að almenningur verður að berjast með kjafti og klóm til að ný stjórnarskrá verði að raunveruleika. Hugsanlegt er að ný stjórnarskrá fæðist í þinginu að ári sem breytir ákkúrat engu eða styrki völd framkvæmdavaldsins frá því sem núna er.

Breytingartillaga Vigdísar um að bæta spurningunni um umsóknina að ESB við spurningarnar um stjórnarskrána var úrskurðuð af Landskjörnstjórn sem tæknilega ekki gerleg. Ekki ættu tvö óskild mál að vera í einni þjóðaratkvæðagreiðslu. Vigdís hafði all nokkra daga til að breyta breytingartillögu sinni. Hún hefði getað farið fram með spurninguna sem sérstaka spurningu sem hefði verið á sérstökum kjörseðli sem hefði verið settur ofaní sérstakan kjörkassa. Sá kjörkassi hefði geta verið frammi á sama degi og kosningin um stjórnarskrána og staðið við hliðina á þeim kjörkassa, í öllum kjördeildum landsins. Ef hún hefði gert þessa litlu breytingu þá hefði þjóðin getað tjáð sig um hvort umsóknarferlið við ESB tæki enda eða ekki strax næsta haust. Hvort þingið hefði tekið tillit til þessa er óvíst.

Hvers vegna hún brást væntingum ESB andstæðinga er mér hulin ráðgáta.

Ég er reyndar einn af þessum ESB andstæðingum, hef verið það s.l. 20 ár að minnsta kosti. Ég væri mjög sáttur ef hægt væri að stöðva umsóknarferlið sem fyrst, sérstaklega ef afstaðan væri afgerandi og við gætum lagt ESB þar með á hilluna og einbeitt okkar að nauðsynlegri málum.

Þrátt fyrir að ég hafi miklar áhyggjur af því að afsala meira af fullveldi okkar til Brussel þá hef ég bara ennþá meiri áhyggjur af algjörum skorti og skilningi íslenskrar valdastéttar á nauðsyn þess að henni ber að lúta þeim verklagsreglum sem almenningur vill við hafa gagnvart henni. Ef almenningur á Íslandi fær ekki aukin völd með nýrri stjórnaskrá þá mun fyrrnefnd valdastétt ekki bara fara með okkur til Brussel heldur í hverja þá vegferð sem henni þóknast í það og það skiptið.

Ef andstæðingar núvernadi ríkisstjórnar vilja kalla á samstöðu gegn henni, sem rík ástæða er til, þá er það óheppileg taktík að nota ESB umræðu sem er þekkt svo lengi sem elstu menn muna að veldur alltaf klofningi og sundrung. Farsælla er að leita að þeim málefnum sem sameinar okkur gegn ríkisstjórninni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur