Föstudagur 24.08.2012 - 21:47 - FB ummæli ()

Lilja, þjóðarvilji og stjórnarksrá

Að Lilja Mósesdóttir velji að vera ekki formaður Samstöðu hefur komið því til leiðar að sumir hafa sett niður penna til að rita grafskrift Samstöðu. Ef það eitt og sér dugir til þá er ekki mikið í íslenska pólitík spunnið. Að koma nýju stjórnmálaafli á kortið er meira en að segja það og væntanlega eru þingstörf talin full vinna. Mér finnst þetta bara ofur eðlilegt og skynsamlegt, hvers vegna ekki að kalla fleiri til starfa á þennan hátt í stað þess að hrekja alla af hólnum eins og gerist í fjórflokknum. Fjölmiðlamenn eru svo vanir því að gjöf skal gjalda að þegar stóllinn er gefinn eftir að hætti móður Theresu þá vita þeir ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Það er reyndar gaman að fylgjast með úrræðaleysinu hjá þeim sem hegðun hennar veldur.

Það er einföldun hjá Lilju að telja sig bera ábyrgð á fylgistapinu, það þarf meira til. Fjárskortur og fjölmiðlaleysi sem Lilja bendir réttilega á er stór orsakavaldur. Það virðist því vera sterk fylgni milli þess að hafa fjármagn og fylgi. Það bendir til þess að kjósendur séu ekki að leita sjálfir að upplýsingum um stefnu flokka heldur bíða þeir eftir því að auglýsingar sannfæri þá um hvað skuli kjósa.

Franska byltingin var öflug og blóðug. Megin ástæða hennar var fátækt og matarskortur(m.a. vegna eldgosa á Íslandi). Hungrið rak almenning áfram. Þrátt fyrir að Lilja sé ötull talsmaður þess að skuldir verði leiðréttar vilja skuldarar ekki kjósa hana. Á hún þá að bíða eftir því að þeir verði nægjanlega svangir?

Þetta bendir til þess að kjósendur lesi í mesta lagi fyrirsagnir. Í lýðræðis þjóðfélagi verður að gera meiri kröfur til almennings. Þegar kemur að kosningum verða menn að lesa sig til og taka upplýsta ákvörðun. Vandamálið er að stundum kjósa menn loforðalista sem er síðan svikinn. Þess vegna sömdu menn í frönsku byltingunni stjórnarskrá til að ná völdunum til almennings og það höfum við líka gert núna á Íslandi. Lúðvík 16 henti stjórnlagaráði á dyr til að koma í veg fyrir nýja stjórnarskrá en án árangurs. Á Íslandi reynir auðvaldið að lítillækka þá vinnu til að missa ekki völdin eins og Lúðvík 16.  Með nýrri stjórnarskrá er hægt að hafa einhverja stjórn á sviknum loforðum sem er ekki hægt með núverandi stjórnarskrá.

Sennilega er almenningi mikið kappsmál að valdafsal eigi sér stað frá elítunni til almennings til að koma í veg fyrir svikin kosningaloforð. Ný stjórnarskrá mun veita almenningi meiri völd. Því ber að styðja grunnhugsunina í nýrri stjórnarskrá að þjóðarvilji ráði för.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur