Sunnudagur 07.10.2012 - 20:25 - FB ummæli ()

Hvað skiptir máli

Eins og Marinó rekur vel í bloggfærslu sinni þá var fjármálaöflunum gefið frítt spil fyrir og eftir hrun. Þau orsökuðu hrunið og hafa síðan notið forgangs að öllu leyti eftir hrun. Núverandi ríkisstjórn hefur verið auðsveipur þjónn þeirra. Ef fjórflokkurinn nær völdum eftir næstu kosningar mun hann skipa sér í lið með fjármálaöflunum og kjör almennings munu versna.

Slík staða er uppi víðsvegar um heim. Mjög margar ríkisstjórnir fátækari landa eru undir hælnum á fjármálaöflunum. Til að mynda fyrir hvern dollar sem kemur inn sem hjálp flæða 10 dollarar út í skattaskjól án þess að ríkisstjórnir geri neitt í því. Í Afríku er flæði fjármagns til skattaskjóla þrefalt á við skuldir Afríku. Ef Afríka gæti skattlagt þetta fjármagn þá yrði Afríka skuldlaus álfa og þróunarhjálp þar heyrði sögunni til.

Þess vegna er til mikils að vinna við að koma böndum á fjármálaöflin. Innan fjórflokksins er enginn vilji til þess. Kjósendur sem vilja breytingar verða því að treysta á ný framboð. Tvö framboð í dag hafa það kristalskýrt að flytja botnlausan gróða bankanna til almennings og að afnema verðtrygginguna, amk treysti ég ekki öðrum til þess. Þessi framboð eru Dögun og Samstaða en hún hefur núna haft mjög góðan landsfund þar sem öflug stjórn var kosin til að vinna að framgangi mála Samstöðu. Bæði þessi framboð eiga sér svipaðar rætur sem stundum er kölluð búsáhaldarbyltingin en er frekar tilvísun á einstaklinga sem fannst sér nóg boðið og stóðu upp. Aðrir þátttakendur í búsáhaldarbyltingunni voru sáttir við að þeirra flokkur náði kjöri vorið 2009 og hafa ekki sést síðan í baráttunni fyrir réttlæti.

Samkvæmt tölum frá Sameinuðu Þjóðunum þá deyja 1000 börn á klukkustund úr þorsta, hungri eða auðlæknanlegum sjúkdómum til að gróði fjármagnsaflanna sé óskertur. Ef fram heldur sem horfir munu örlög þessara barna verða örlög barna víðsvegar um heim og jafnvel í Evrópu. Gróðafíknin á sér engin takmörk og mannkynsagan er yfirfull af slíkum dæmum. Þess vegna er mikilvægt að spyrna við fótum.

Ísland er möguleiki. Við höfum áður gert óvenjulega hluti og er þá Icesave deilan eitt dæmi. Ef þeir flokkar sem vilja virkilega setja beislin á fjármagnsöflin og beita þeim almenningi til hagsbóta ná góðri kosningu næsta vor er í raun um tímamótaatburð að ræða. Allt í kringum okkur eru ríkisstjórnir að lúffa fyrir bankavaldinu. Afleiðingin þar er mikill niðurskurður á velferðakerfinu, fátækt og hungur.

Ábyrgðin er mikil. Þegar mið er tekið af okkar fátækustu meðborgurum sem deyja úr þorsta og hungri á hverjum degi er ekki mikið tilefni fyrir okkur að rífast eða sundra okkur til að ná settu marki. Kjósendur á Íslandi hafa möguleika á því að skapa fordæmi sem gæti hugsanlega haft veruleg áhrif á heimsvísu. Það er okkar að standa saman og kynna möguleikana af alúð fyrir kjósendum okkar. Við getum aldrei verið að þessu fyrir okkur sjálf, okkar er bara að sjá til þess að börn komist á legg.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur