Fimmtudagur 25.10.2012 - 00:21 - FB ummæli ()

Lengi skal manninn reyna

Mörður Árnason þingmaður segir frá því á bloggsíðu sinni að hann hafi komið fram með þingsályktunartillögu. Hún gengur út á það að hætta að greiða í lífeyrissjóðinn sinn og í staðinn borga niður lánin sín í allt að fimm ár. Hann segir að þetta sé svipað og að taka lán hjá sjálfum sér.

Hér er um að ræða algjöra uppgjöf gagnvart lánadrottnum. Hjá aðþrengdum lántakendum er séreignasparnaðurinn búinn og nú á að opna fyrir sjálfan grunnlífeyrinn. Það dugar ekki fjármálafyrirtækjum að íslenskir skattgreiðendur séu að styrkja einstaklinga til að greiða sínar húsnæðisskuldir með vaxtabótum heldur á nú að ganga í ævisparnaðinn líka.

Allt tal um það að allar skuldir skulu greiddar án tillits til aðstæðna er æði sérkennilegt. Þær skuldir sem ekki er hægt að greiða verða ekki greiddar, það er reglan. Það er hagfræði, innan þeirrar fræðigreinar er gert ráð fyrir því að sumar fjárfestingar skili ekki inn arði. Þeir sem segja að allar skuldir skuli greiddar eru að ræða málið út frá siðfræði eða trúarlegum skoðunum.

Þegar komminn í krataflokknum er orðinn sendill bankanna er orðið tímabært að hreinsa til innan þingsins.

Dögun, nýtt stjórnmálaafl sem ætlar að bjóða fram í næstu kosningum, hefur fullan hug á því að bjóða lántakendum upp á eitthvað annað en að ylja sér í smástund í hlandblautum skónum. Fyrsta mál í kjarnastefnu Dögunnar er að leysa verður skuldavanda heimilanna með róttækum hætti og bæta aðstöðumun almennings gagnvart fjármálavaldinu. Leita skal lausna á forsendum lántakandans frekar en lánveitandans. Við viljum tafarlaust afnám verðtryggingar á neytendalánum og almenna leiðréttingu húsnæðislána.

Kjósendur eiga að minnsta kosti valmöguleika og vonandi verður þingstyrkur þeirra sem vilja breyta annar en hann er í dag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur