Miðvikudagur 26.12.2012 - 23:09 - FB ummæli ()

Dögun

Jólaveislan hefur þau áhrif að hneppa þarf upp tölunni á buxunum til að veita spikinu meira rými. Samtímis er huganum beint til þeirra sem eiga ekki við slík vandamál að stríða. Fjöldi einstaklinga eiga ekki jól eins og við, eiga jafnvel ekki buxur. Ég man þá tíð þegar mér fannst ég ríkur að eiga buxur til skiptanna því sumir félaga minna urðu að sitja á kolli og bíða eftir að móðir þeirra þvæði þeirra einu buxur.

Jóhannes Skírari sagði að sá sem ætti tvennt af einhverju skyldi gefa annað til fátækra. Pólitískar stefnur hafa oft gengið út á slík sjónarmið þ.e. að deila auðæfum milli hópa.   Við höfum horft upp á auðsöfnun þeirra ríkustu á síðustu áratugum. Samtímis hafa tök þeirra á lýðræðislegum stofnunum okkar aukist. Veröldin er fjær jöfnuði í dag en áður. Viðurkenning á skorti er næring bæði fyrir kapitalista og kommúnista og allra þar á milli, en er einhver skortur í raun? Það er enginn skortur en það er ekki rétt gefið.

Dögun er stjórnmálaafl sem er í mótun þessa dagana og ætlar að bjóða fram í næstu Alþingiskosningum. Um er að ræða byltingarkennt afl sem vill breytingar. Við keppumst við að finna lausnir á þeim vandamálum sem blasa við okkur Íslendingum. Mikil vinna hefur fylgt því markmiði enda ekki auðvelt verkefni.

Við viljum afnema verðtrygginguna og teljum hana orsök verðbólgunnar og ábyrgðalausrar útlánastarfsemi. Við viljum leiðrétta kjör lántakenda sem hafa farið verulega halloka frá hruni. Við viljum réttlæti og jöfnuð í sjávarútvegsmálum, afnema kvótakerfið, allan fisk á markað og að allir hafi jafnan rétt til að veiða.

Við ætlum okkur ekki að verða bókstafir í sögubókum, við ætlum að skapa söguna því við ætlum okkur að breyta. Þess vegna þurfum við hugrakka kjósendur sem eru tilbúnir að treysta Dögun. Við þurfum 32 þingmenn því annars mun ekki mikið breytast ef fjórflokkurinn lifir.

Markmiðið  er ekki vellandi spik heldur að allir eigi buxur til skiptanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur