Sunnudagur 27.01.2013 - 18:56 - FB ummæli ()

Lýðræði og peningar

Framleiðsla peninga hefur verið aðeins í umræðunni. Frosti Sigurjónsson hefur rætt það nokkuð og er með heimasíðu um efnið. Lilja Mósesdóttir hefur lagt fram á Alþingi tillögu um að kanna hvort heppilegast sé að einkabankar framleiði peningana okkar eða ekki.

Ég tel að stór hluti almennings sé ekki að átta sig á því hvað um er rætt og alls ekki margir fræðimenn. Til að von sé til að breyta kerfinu þarf það að breytast.

Bankar gegna tvöföldu hlutverki, þeir taka við peningum almennings og lána síðan út peninga. Hitt hlutverkið er að bankar búa til nýja peninga samtímis og þeir lána þá. Þannig stjórna bankar hversu mikið er af peningum í umferð á hverjum tíma. Hugmyndir umbótasinna er að svifta bankana möguleikanum á því að búa til nýja peninga og færa það hlutverk alfarið til stjórnvalda. Þá er að minnsta kosti kominn einhver lýðræðisbragur á peningamyndun, einhver ábyrgð gagnvart valdhöfum landsins, þ.e. almenningi, hversu mikið af peningum er búið til á hverjum tíma. Auk þess yrði peningamyndun tengd hagsmunum almennings en ekki gróðaþörf bankakerfisins. Að treysta fjölþjóðlegum einkafyrirtækjum, bönkum, til að ákvarað peningamagn í umferð er vægast sagt galin hugmynd. Því til rökstuðnings má nefna helstu kreppur á liðnum árum sem orsakast fyrst og fremst af of mikilli peningamyndun(bóla) og síðan af allt of lítilli peningamyndun(kreppa) sem einkabankar bera alla ábyrgð á því þeir búa til 97% af öllum peningum. Bara til að nefna helstu ártölin; 1720, 1772, 1792, 1796, 1813, 1819, 1825, 1837, 1847, 1857, 1866, 1873, 1884, 1890, 1893, 1896, 1901, 1907, 1910, 1929, 1973, 1980, 1983, 1987, 1989, 1990, 1992, 1994, 1997, 1998, 2001 og 2007. Því er það augljóst að bönkum er ekki treystandi fyrir þessu valdi og hitt að opinberir aðilar þurfa að leggja sig veruleg fram til að standa sig ver(1923 starfaði þýski seðlabankinn nánast sem einkabanki).

Bankar taka við peningum almennings og eru þeir lagðir inn á innlánsreikninga. Það sem gerist í raun er að almenningur lánar bankanum peningana sína og bankinn getur gert það sem honum sýnist með þá. Það sem almenningur sér í heimabankanum í tölvunni sinni er loforð bankans að endurgreiða lánið. Afleiðingarnar af þessu eru eftirfarandi: Almenningur er lánadrottin gagnvart bönkunum og því er um að ræða lánaviðskipti milli tveggja einkaaðila og þess vegna á hið opinbera ekki að tryggja það á neinn hátt með skattfé almennings. Þar sem um lánaviðskipti er að ræða og það er hagfræðileg staðreynd að ekki öll lánaviðskipti borga sig þá geta menn tapað á þeim. Að allar skuldir skuli greiddar er ekki hagfræði heldur trúabragðafræði. Einnig getur bankinn fjárfest í gereyðingavopnum eða klámiðnaði án þess að almennignur hafi neitt um það að segja. Það sem er mikilvægt að skilja er að ef almenningur vill geyma peninga sína í banka verður hann að leigja bankahólf og læsa peningana sína þar, það er eina leiðin í dag til að geyma peninga á tryggan hátt og geta síðan dregið bankann til ábyrgðar ef hólfið er tómt einn góðan veðurdag.

Margir trúa því að ef banki lánar út peninga þá noti hann innistæður sem eru til staðar í bankanum. Þar sem enginn hefur séð innistæðu sína lækka vegna þess að bankinn hafi lánað út peninga þeirra og inneign almennings er mun lægri en öll útlánastarfsemi bankakerfisins þá er bankakerfið að lána peninga sem voru ekki til áður. Þess vegna er það þannig að það eru búnir til nýir peningar þegar bankinn lánar. Þar sem þeir voru ekki til áður þá eru þeir búnir til úr engu. Bankinn slær bara á lyklaborðið og býr til peningana.

Sem sagt þegar þú leggur peningana þína inn í bankann þinn þá ertu að lána honum peningana þína. Bankinn býr til peninga úr engu. Auk þess hefur bankakerfið einkaleyfi á því að búa til peninga. Hið opinbera býr bara til seðla og mynt en það er um 3% af öllum peningum í umferð.

Ef við breytum kerfinu í það sem fólk heldur og trúir að það sé þá erum við komin vel áleiðis. Ef bankar verða skyldaðir til að geyma peningana okkar og eingöngu leyft að lána út peninga sem þeim hefur verið treyst fyrir af öðrum, þ.e. 100% bindiskylda, þá höfum við tekið valdið til að búa til peninga frá einkafyrirtækjum, þ.e. bönkunum. Við færum það vald til hins opinbera.

Samtímis verða þeir sem leggja inn peningana sína inná bankareikning að taka afstöðu til þess hvort þeir samþykki að bankinn láni þá öðrum. Þeir varkáru velja sjálfsagt að bankinn geymi þá en hinir eru til í áhættu. Þá áhættu væri hægt að takmarka við ákveðna upphæð og auk þess skilgreina í hverju væri fjárfest. Því væri um mun gagnsærra kerfi að ræða.

Til að tryggja öryggi innláns þá væru bankarnir skyldugir til að leggja innlán allra inn á reikninga sem væru í vörslu Fjármálaráðuneytisins. Þegar banki veitti lán þá færi millifærslan frá einum reikingi til annars innan Fjármálaráðuneytisins. Hlutverk bankans væri að kanna greiðslugetu viðkomandi lántaka og bera ábyrgð á henni. Á þennan hátt væru einkabankar sviftir þeim hlunnindum að búa til peninga en slíkt yrði fært alfarið til hins opinbera.

Eini aðilinn í þjóðfélaginu sem gæti búið til nýja peninga væri hið opinbera.

Þar sem einkabankar búa til peninga úr engu í dag og græða á því er það engin kúnst að samþykkja það að hið opinbera geri það öllum til hagsbóta. Þeir sem setja sig upp á móti því eru þá augljóslega að hygla fjölþjóða einkafyrirtækjum, þ.e. bönkum.

Hið opinbera gæti þá búið til peninga án skuldsetningar. Það myndi greiða fyrir alla þjónustu og framkvæmdir á vegum hins opinbera með skuldlausum peningum. Þannig væri peningum komið í umferð. Að taka tillit til hagvaxtar yrði hið opinbera að framleiða nægjanlega mikið af peningum til að sá hagvöxtur gæti átt sér stað. Með skynsamlegri stjórnun á peningamagni myndu bólur og kreppur heyra sögunni til. Hið opinbera gæti því rekið sína þjónustu án kostnaðar fyrir almenning og þar með myndu skuldir hins opinbera lækka og þar með skattar.

Peningar sem eru búnir til af bankakerfinu í dag eru búnir til sem skuld, við bankakerfið. Ef ríkið býr til peningana án skuldsetningar þá verður þjóðfélagið án slíkrar skuldsetningar. Þess vegna munu allir þeir sem njóta góðs af skuldlausum peningingum auka verðmætasköpun þjóðfélagsins. Hingað til hefur sú verðmætasköpun farið til bankanna en ekki fólksins.

Þeir sem velta mikið fyrir sér lýðræði eða stjórnarskrám ættu núna að skynja það að valdið í lýðræðisþjóðfélagi er ekki skipt í þrennt. Hefðbundin skipting er löggjafa-, framkvæmda- og dómsvald. Það sem við höfum upplifað eftir að bankakreppan skall á okkur 2007 er að bankavaldið er sterkast og segir löggjafar- og framkvæmdavaldinu fyrir verkum. Skýringin er sú að valdið til að búa til peninga er sterkasta valdið innan lýðræsðisskipulags okkar. Það tilheyrir bankakerfinu í dag og hefur gert það s.l. 300 ár. Það stjórnar. Þar með er það orðið fjórða valdið innan lýðræðsisskipulags okkar og það valdamesta. Af þeirri einföldu staðreynd að það er valdamest þá á það að tilheyra almenningi því samkvæmt lýðræðishugsjóninni þá á almenningur að hafa völdin.

Allir þeir sem vilja að lýðræði sé til staðar, allir þeir sem vilja að þjóðgfélögum sé stjórnað á lýðræðislegan hátt, allir þeir sem vilja að valdið sé almennings og lýðræði sé í raun virkt þeir vilja líka að peningamyndun sé í höndum almennings. Að hið opinbera búi til peninga er mikilvægasta lýðræðisumbótin og án þess er allt annað hljóm eða popúlismi. Til hvers lýðræði ef bankarnir stjórna hvort eða er?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur