Laugardagur 09.02.2013 - 21:18 - FB ummæli ()

Hver skuldar hverjum hvað…

Það eru tvö blogg í dag á Eyjunni sem eru sérstaklega eftirtektarverð og nauðsynlegt að hugleiða þau nánar. Það eru blogg Þórs Saari og Friðriks Jónssonar. Þeir nálgast málið frá aðeins ólíkum vinklum en samnefnarinn er orðið ósjálfbært. Skuldastaða Íslands er ósjálfbær. Peningamyndun á Íslandi er umfram verðmætasköpun og er ósjálfbær. Niðurstaðan er einföld, landið er gjaldþrota og við því þarf að bregðast af yfirvegun og ábyrgð. Þeir kalla báðir eftir slíkum viðbrögðum valdhafa.

Þeir Þór og Friðrik ættu í raun að fá mikil viðbrögð, fólk ætti að safnast saman á götum úti og ræða málin. Slíkt gerist ekki og núverandi Ríkisstjórn vísar öllu slíku tali frá sér. Raunveruleikinn er of alvarlegur til að fólk treysti sér til að horfast í augu við hann. Innan Dögunar er reynt að horfast í augu við vandann og  finna lausnir. Við sjáum miklar hættur framundan og viljum undirbúa okkur sem best til að mæta þeim.

Ég hef ekki séð aðra stjórnmálaflokka viðurkenna þessa alvarlegu stöðu sem við erum í né að þeir séu með lausnir á vandanum.

Almenningur virðist reiðubúinn til að halla sér að þeim sem boða blóm í haga og forðast að ræða um gjaldþrota land. Við bitum á öngul nýfrjálshyggjunnar í boði Davíðs og có, ekki einu sinni heldur endurtekið. Nú verður almenningur að sýna ábyrgð, setjast niður, hugleiða og kynna sér málin. Um er að ræða sjálfstæði landsins því land sem er ofurselt skuldunautum sínum er ekki frjálst. Við sjáum það glögglega hvernig lánadrottnar fara með Grikki, Spánverja, Portúgali og Íra. Ætlum við okkur að fara sömu leið?

Við erum sjálfstætt land, Icesave kenndi okkur að við getum sagt nei. Við verðum að henda af okkur skuldum sem gera okkur að þrælum og endursemja um afganginn. Við verðum að gera ráðstafanir sem duga til þess að fólk vilji búa hér áfram. Við verðum því að hafa hugrekki til að segja við fjárfesta; þið græðið ekki alltaf, stundum borga fjárfestingar sig ekki, ykkur gengur bara betur næst, sorry.

Til þess þarf hugrekki og 110% hollustu við þjóðina og það er það sem við í Dögun erum reiðubúin að bjóða upp á.

Ps. Það er eitt sem sundrar okkur sem þjóð, sumir halda að þeir skuldi ekki neitt og vilja ekki styðja þá sem skulda. Raunin er sú að þjóðin öll skuldar of mikið og þarf því að standa saman, það er eina leiðin.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur