Þriðjudagur 05.03.2013 - 18:58 - FB ummæli ()

Að kjósa sér framtíð

Íslenska þjóðin er að upplifa merkilega tíma. Bankakerfið hrundi haustið 2008 í kjölfar glórulausrar heimsku allra þeirra sem að komu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sér til þess að afgangurinn af efnahagslífinu blæði til að koma í veg fyrir að lánadrottnar tapi of miklu. Sterkasta vinstri stjórn sögunnar á Íslandi, pökkuð með loforðum um bættan hag almennings, beisli á AGS, uppstokkun á kvótakerfinu og nýja stjórnarskrá svíkur almenning blygðunarlaust.

Það var hámark óskhyggjunnar að halda að þaulsetnir þingmenn hefðu haft einhvern áhuga á því að skerða völd sín með nýrri stjórnarskrá en samt..

Til marks um lítinn áhuga á skoðun almennings á að festa illræmt kvótakerfi enn frekar í sessi. Núna eiga þeir að fá kvóta í 20 ár en ekki bara eitt. Það er augljóst hverjir hafa áhrif á ráðherrana, að minnsta kosti ekki almenningur.

Ef fjórflokkurinn verður kosinn aftur á þing þá er ljóst að hagsmunaaðilar eins og LÍÚ og bankarnir munu eiga greiðan aðgang að framkvæmda- og löggjafarvaldinu eins og áður. Þá munu gjörðir Alþingis ekki endurspegla vilja almennings. Viljum við það aftur eða viljum við breytingar?

Viljum við áframhaldandi útburð fólks af heimilum sínum, gjaldþrot, fátækt, skerðingu hjá öldruðum og öryrkjum. Viljum við gáleysislega meðferð gjaldeyrishafta samfara þóknun við vogunarsjóði með nýju hruni? Viljum við áframhaldandi hrun velferðarkerfisins svo hægt sé að fóðra bankana?

Ef við endurnýjum umboð fjórflokksins í næstu kosningum þá munum við bara fá meira af því sem við höfum fengið hingað til eftir hrun. Að halda annað er óskhyggja. Er það það sem við viljum?

Kjósendur eiga annan valmöguleika og hann er Dögun. Kynnið ykkur stefnu okkar þannig að þið takið upplýsta ákvörðun á kjördag. Það fylgir mikil ábyrgð að kjósa. Ef við gefum fjórflokknum frí á næsta kjörtímabili þá gætum við öll upplifað enn merkilegri tíma á Íslandi en ella.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur