Laugardagur 30.03.2013 - 22:17 - FB ummæli ()

Valmöguleikar á páskum

Íslensk þjóð hefur sjaldan haft meiri möguleika en í dag. Hægt er að kjósa gamla fjórflokkinn og viðhengið Bjarta framtíð til að gulltryggja áframhaldandi pólitík um að halda völdum valdanna vegna. Hins vegar er möguleiki á því að kjósa ný framboð sem lofa því að vinna fyrir almenning og afneita tengslum við sérhagsmunaaðila. Öll framboð þurfa að komast yfir 5% þröskuldinn og er það gömul staðreynd. Af þeim sökum hafa margir unnið að því að sameina alla sem vilja raunverulegar breytingar á Íslandi allt frá hruni haustið 2008. Árangurinn af þeirri vinnu hefur orðið andstaða markmiðsins og í stað eins framboðs höfum við mörg framboð. Við höfum Dögun, Pírata, Lýðræðsivaktina og Hægri græna sem eru komin á landsvísu. Flokkur heimilanna er í fæðingu og síðan sérframboð í kjördæmum. Samstaða var á tímabili á leið í framboð en helltist úr lestinni.

Klofningurinn orsakast bæði af mönnum og málefnum.

Mikil vinna hefur átt sér stað við sameiningu margra hópa undanfarin tvö ár og afraksturinn af því var stofnun Dögunar fyrir ári síðan. Þar innanborðs eru Hreyfingin, Borgarahreyfingin, Frjálslyndi flokkurinn, fulltrúar úr stjórnlagaráði og margt annað gott fólk. Því miður vildi Lilja Mósesdóttir ekki koma með okkur í Dögun. Síðan klofnaði Birgitta inn í Pírata og Lýður fór og stofnaði Lýðræðisvaktina.

Það sem er einkennandi er að mörgum finnst nauðsynlegt að prófa upp á sitt einsdæmi hvort þeir komist á flug án annarra. Ef það gengur ekki eftir eru menn frekar reiðubúnir til að vinna saman. Stundum gerast góðir hlutir hægt og betra er seint en aldrei, eða þannig sko.

Best væri að geta afnumið 5% þröskuldinn strax í dag og allir gætu komið sínum frambjóðendum á Alþingi þannig að öll flóra mannlífsins ætti sína fulltrúa þar. Þar sem það er ekki raunveruleikinn þá hefði fólk átt að vinna meira og betur að því að standa saman. Að afneita þeim gömlu sannindum að sameinuð stöndum við og sundruð föllum við ber því vott um óskhyggju sér til handa. Sú óskhyggja virðist ekki ætla að ganga eftir. Hin skýringin á því að menn bjóða fram sér er kannski sú að viðkomandi aðilar telji sinn kost svo einstakann að þeir falli frekar með sæmd um 5% þröskuldinn en að sameinast öðrum. Orsökin fyrir slíkri hugsun er sennilega sú að menn séu frekar að þessu fyrir einhverja aðra en þjóðina.

Eftir að núverandi þrælar fjármálaflanna og annarra sérhagsmunaaðila á Alþingi Íslendinga nánast migu yfir íslenska kjósendur og lýðræðisvitund almennings á lokadögum þingsins þá hafa margir hrokkið í kút. Þá fara kjósendur að leita að nýjum möguleikum og þá kemur fram krafan um sameiningu hjá nýjum framboðum. Það segir sig sjálft að ef viljum hnekkja valdi valdaklíkunnar á Alþingi verðum við að sameinast á einn eða annan hátt til að nýta atkvæðin. Við erum allmörg sem höfum unnið að slíku s.l. fjögur ár og að fá stuðning núna frá stórum hópi kjósenda er ekki verra, spurningin er hvort það dugar. Hugsanlegt er að nýta sér fordæmi frá kosningunum frá 1967 þar sem atkvæði voru samnýtt milli flokka. Að ætla sér að stofna eitt nýtt framboð er ekki raunhæft vegna tímaskorts.

Það var þess vegna sem við hófumst handa við þetta fyrir nokkrum árum en Íslendingar virðast alltaf gera allt á elleftu stundu.

Athyglisvert verður að lesa frásagnir framtíðarinnar um frammistöðu spakvitringa dagsins í dag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur