Miðvikudagur 19.06.2013 - 22:19 - FB ummæli ()

Að vera í sitthvoru liðinu

Pólitísk umræða á Íslandi snýst mikið um það að skjóta á andstæðinginn ef hann sýnir hið minnsta veikleikamerki. Allt er notað því tilgangurinn er að reyna að koma höggi á mótherjann frekar en að rökræða. Einnig kappkosta flestir að vera í sínu liði. Þetta er ekkert nýtt en er skaðlegt öllum til lengdar, nema þá þeim sem hugsanlega komast til valda..næst.

Vinstri menn rífast við hægri menn og öfugt, ESB sinnar við ESB andstæðinga , ríkir við fátæka, landsbyggð við borgarbúa, stjórn við stjórnarandstöðu og svo framvegis. Enginn virðist rífast við þá sem valdið hafa. Almenningur afhendir valdið til kjörinna fulltrúa með kosningum og þar ætti valdið því að vera. Er það svo?

Fyrir nokkra silfurpeninga dansa þingmenn fyrir LÍÚ og því má segja að LÍÚ hafi völd án þess að hafa hlotið kosningu almennings. Skuldir sjávarútvegsins eða kvótakaupenda eru miklar og dansa þeir því fyrir lánadrottna sína sem eru bankarnir. Fyrir hrun lánuðu bankarnir eins og það væri enginn morgundagurinn og þegar þeir gátu ekki endurfjármagnað sig fóru þeir á hausinn. Hvernig gátu mistök einkafyrirtækja orðið að skuld skattgreiðenda á; Íslandi, Lettlandi, Írlandi, Grikklandi, Spáni, Portúgal, Ítalíu og svo framvegis. Bankar hafa mjög mikil völd þrátt fyrir að kjósendur hafi ekki kosið að hafa það þannig. Það er ekki bara að þeir geti liðkað fyrir sér með silfurpeningum heldur hafa þeir valdið.

Vald þeirra er að búa til peningana okkar. Þeir hafa meira að segja einkaleyfi á því. Það er sterkarsta valdið innan lýðræðisskipulags okkar eins og augljóst er þar sem þeir hafa þá í vasanum sem við kjósum til að stjórna fyrir okkur. Þess vegna stjórna kjörnir fulltrúar okkar fyrir bankana en ekki okkur. Þess vegna eru skuldir einkabanka gerðar að  skuldum almennings. Á meðan svo er í pottinn búið er tilgangslaust að rífast um eitthvað annað. Í raun eru þau deilumál sem ég nefndi áðan í raun bara fundin upp til þess að við séum ekki að standa saman gegn fjármálavaldinu. Meðan við rífumst um hvaða lið fær að þjóna bankavaldinu breytist ekki neitt. Ef vald bankanna verður afnumið og flutt til almennings þar sem það á heima getum við farið að rífast um pólitík, fyrr þjónar það bara hagsmunum bankanna að við séum öll í sitthvoru liðinu.

Flokkar: Peningar · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur