Laugardagur 22.06.2013 - 22:55 - FB ummæli ()

Óvinir ríkisins

Tengdapabbi var sósíalisti og mætti í Keflavíkugöngurnar til að mótmæla vist bandaríska hersins á Suðurnesjum.

Þegar ég og konan mín vorum að undirbúa brúðkaupsferð okkar til Bandaríkjanna 1980 þá þurftum við að fá vegabréfsáritun eða visa til að geta ferðast þangað. Í mínu tilfelli gekk það áfallalaust því ég hafði erft blátt blóð en eiginkonan var ”kölluð á teppið” í bandaríska sendiráðið. Þar fékk hún þá spurningu hvort hún hefði tekið þátt í mótmælum gegn veru hersins. Tilgreindi þessi bandaríkjamaður stað og stund. Konan mín svaraði að það væri sennilegt en þar sem hún hefði bara verið fjögurra ára á tilteknu ári hefði hún sennilega setið á öxlunum hans pabba síns. Þegar kaninn áttaði sig á mistökunum varð snöggur endir á yfirheyrslunum og stimpillinn skall á passann. Síðan áttum við yndislega ferð um Bandaríkin.

Fyrir nokkrum dögum vorum við rækilega minnt á að stóri bróðir fylgist með okkur. Bandaríkjamaðurinn Edward Snowden kom fram og sagði frá njósnastarfsemi í heimalandi sínu gagnvart almennum borgurum. Tengdapabbi þurfti að gera eitthvað til að komast á skrá. Samkvæmt Edwards þá fylgjast þeir í dag með fólki sem hefur jafnvel ekki gert neitt, en upplýsingum er safnað til vonar og vara. Síðan er hægt að nota upplýsingarnar ef viðkomandi bærir á sér á óæskilegan hátt.

Persónunjósnir yfirvalda hafa verið stundaðar oft áður og þá með þeirri tækni sem hefur verið tiltæk hverju sinni. Þegar njósnirnar verða almennar og án tilefnis er tilgangurinn er að efla vald stjórnvalda yfir almennum borgurum. Þetta þekkjum við allt vel úr mannkynssögunni. Það sem er áhyggjuefni er að almenningur í dag virðist næstum kæra sig kollóttann og áttar sig alls ekki á alvöru málsins. Á því þarf að verða róttæk breyting. Að öðrum kosti er 1984 skammt undan.

Flokkar: Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur