Föstudagur 04.10.2013 - 23:14 - FB ummæli ()

Mótmælendur Íslands…

Okkar kæra land hefur upplifað bankakreppu frá 2008. Ísland hefur síðan brugðist við kreppunni á hefðbundinn hátt að mestu leyti. Stórar fjárhæðir skattgreiðenda hafa farið í að endurreisa fjármálakerfi sem bar höfuð ábyrgðina á hruninu. Til að standa straum að þessum kostnaði ríkisins hefur þurft að skera verulega niður í öðrum útgjaldaliðum ríkisins og þá fyrst og fremst í velferðarmálum. Þess vegna er meginástæða vandræða okkar að við ákváðum að dæla miklum fjármunum í þá sem settu okkur á hausinn.

Eins og flest okkar ættu að gera sér grein fyrir þá breyttist ekki magn fisks sem við veiddum fyrir eða eftir hrun og skapar sjávarútvegurinn um 40% tekna Íslands. Flæði hráefna til álframleiðslu minnkaði ekki heldur haustið 2008 og því gátum við framleitt jafn mikið ál fyrir og eftir kreppu og sá iðnaður skapar um 40% tekna Íslands. Þrátt fyrir að við framleiðum jafn mikið af seljanlegum verðmætum varð hér hrun vegna gjaldþrots einkabanka, sem í raun framleiddu minnst lítið. Kæmi mér ekki á óvart að verðmætasköpun heilbrigðiskerfisins væri meiri en bankanna.

Að sjálfsögðu á bankakerfið að skila tilbaka þeirri ríkisshjálp sem það hefur fengið  og með hæstu leyfilegum vöxtum. Aðrir í okkar þjóðfélagi sem hafa afgang eiga þar að auki að leggja meira af mörkum. Innistæðueigendur feitra bankabóka sem treystu einkabönkum fyrir sparnaði sínum en fengu síðan allt til baka á kostnað skattgreiðenda mættu finna fyrir samfélagslegri ábyrgð og skila eitthvað af milljónunum til baka þegar velferðakerfið okkar er að hruni komið. Heilbrigðisráðherra er þvi ekkert að vanbúnaði að hefja peningasöfnun fyrir heilbrigðiskerfið okkar.

Þar sem auðmenn Íslands keyptu núverandi Ríkisstjórn til valda mun ekki verða nein bylting hér til handa venjulegu fólki. Meðan íslenskur almenningur telur að byltingin komi frá strengjabrúðunum á Austurvelli mun fátt breytast. Meðan ekki eru minnst fimmtíuþúsund Íslendingar að mótmæla á Austurvelli skil ég lítið í þessu nöldri á netinu.

Alþingishúsið og eldur

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur