Fimmtudagur 10.10.2013 - 22:04 - FB ummæli ()

Hver stjórnar

Að skattleggja skilanefndir er árás á eignaréttinn. Að stöðva nauðungaruppboð er árás á eignaréttinn. Við vörðum eignaréttin(fyrir þá) þegar við endurreistum bankakerfið. Að leiðrétta skuldir fasteignaeigenda er sjálfsagt árás á eignarétt(þeirra) og að afnema verðtrygginguna er árás á framtíðar eignarétt lánadrottna okkar. Hlutverk núverandi stjórnvalda er að gera minnst lítið nema að halda skrílnum í skefjum svo eignanámið frá okkur til þeirra gangi óhindrað fyrir sig. Ef þau væru með okkur í liði væru þau búinn að redda þessu fyrir löngu.

Við höfum enga stjórn á kjörnum fulltrúum okkar. Við höfum engin verkfæri til að fá þá til að sinna hagsmunum okkar. Þeim er stjórnað af lánadrottnum. Fjármálakerfið með bankakerfið í broddi fylkingar stjórnar þeim sem  þjóðin kaus til að vinna fyrir sig. Þess vegna er það frumskilyrði ef við viljum hafa einhverja gleði af því að ræða mismunandi pólitískar stefnur að við losum þetta tangarhald. Meðan það er til staðar skiptir það ekki svo miklu máli hverja við veljum í stólana.

Tangarhaldið er skuldin. Að fulltrúar skattgreiðenda skyldu taka það í mál að leggja allar þessar álögur á almenning við endurreisn bankakerfisins veldur því að núverandi stjórnvöld telja sig ekki fær um að reka hér velferðarkerfi nema það sem snýr að kvótagreifum og lánastofnunum. Tangarhaldið er einnig einkaleyfi bankanna til að búa til peninga. Ef þeir neita að taka við ríkisskuldabréfi þá fær ríkið ekki peninga til að reka sig. Grikkir fengu að finna fyrir því þegar lánadrottnar kröfðust svo hárra vaxta(fyrir að búa til peninga úr engu) að Grikkir hrökkluðust í fang þríeykisins. Þríeykið þvingaði síðan Grikki að taka á sig skuldir til að greiða fyrir mistök bankakerfisins. Núna koma fréttir um að einn Háskólanna í Aþenu sé að loka vegna niðurskurðar. Saga Grikkja síðustu ár sýnir okkur einnig að litlu skiptir hverja þeir hafa valið í stólana, þríeykið sem fulltrúi lánadrottna ræður öllu.

Skuldsetningin sem þröngvað er upp á þjóðir þjónar sínum tilgangi. Ef rýnt er í örlög Grikkja er margt í vændum fyrir okkur og aðrar þjóðir í svipaðri stöðu s.s. sala ríkisfyrirtækja og að arður af auðlindum almennings fari í bankabækur stórfyrirtækja í skattaskjólum.

Er ekki kominn tími til að nema staðar gott fólk, huga að því sem sameinar okkur. Við hljótum að geta sameinast um að afnema völd fjármálakerfisins yfir kjörnum fulltrúum okkar. Vald fjármálakerfisins þarf að flytja aftur til kjörinna fulltrúa okkar því það er fjórða valdið í lýðræðisskipulagi okkar. Það ætti að gagnast öllum pólitískum stefnum því þá geta allir rekið sína pólitík án afskipta fjármálakerfisns. Það er einfaldlega of mikið í húfi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur