Laugardagur 28.12.2013 - 00:49 - FB ummæli ()

Stikkfrí

Sennilega eru Alþingiskosningarnar einn merkilegasti atburðurinn á s.l. ári, að minnsta kosti í pólitíkinni. Ég tók þátt í einu af nýju framboðunum(Dögun) en straumurinn var ekki til þeirra heldur fjórflokksins. Vinstri flokkarnir glötuðu besta tækifæri sínu til að sanna sig frá upphafi og þess vegna fór fylgið til Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins og þeir flokkar unnu stóran sigur s.l. vor. Sumir dæmdu kjósendur sem heimska en því er ég ósammála. Kjósendur telja einfaldlega að lausnir finnist innan fjórflokksins og þess vegna snýst þátttaka þeirra í kosningum um að velja á milli þeirra. Meðan lang flestir telja að fjórflokkurinn hafi lausnir er ekki von á breytingum sem skipta máli. Fylgið ferðast á milli fjórflokkanna og pólitíkin er keimlík og valdastéttin situr örugg í sínum sessi.

Þar sem fjórflokkurinn er gegnsýrður og stjórnað af valdastétt landsins eru kjósendur í raun að kjósa sama hópinn yfir sig aftur og aftur. Því miður er ekki víst að það dugi að kjósa framhjá fjórflokknum því völdin liggja ekki endilega innan veggja Alþingis. Ef kjósendur kjósa alltaf sama hópinn og þeir hafa engin raunveruleg völd þurfum við þá ekki að breyta til og kjósa frekar þá sem hafa völdin eða að endurvekja völd þeirra sem sitja á Alþingi.

Mörgum er ljóst að fjármálakerfið, bankarnir og stórfyrirtækin stjórna. Að aftengja þessi valdatengsl er mjög brýnt. Það sem gerir bankana sérstaklega valdamikla er að þeir búa til peningana fyrir almenning og opinbera aðila. Þessu verður að breyta. Peningaprentun er í raun fjórða valdið í lýðræðsisskipulagi okkar og það valdamesta. Að einkafyrirtæki sem kallast bankar hafi það vald er í algjörri andstöðu við hugsjónir lýðræðisins. Slíkt vald á heima hjá almenningi ef hann vill geta haft einhver áhrif á líf sitt og framtíð sína. Meðan síðasta orðið er alltaf hjá fjármála(banka)kerfinu er til lítils að kjósa einhverja pólitíska stefnu, hversu falleg sem hún er, til að lúta valdi þess. Framtíðin ber í skauti sér hægri stjórn, síðan vinstri stjórn eða kannski blandaða stjórn og ASÍ semur um kauphækkanir fyrir almenning eftir þörfum fjármálakerfisins.

Ef allur almenningur gerði sér grein fyrir tengslum stjórnmála og fjármálakerfisins þá yrði bylting. Að gera sér grein fyrir því að fjármála(banka)kerfið stjórnar í raun og að fjór(fimm)flokkurinn lítur stjórn þess kerfis án nokkurs umboðs myndi valda straumhvörfum. Sú einfalda staðreynd að börnin okkar eiga sér ekki góða framtíð myndi vekja marga. Þegar rætt er um að við verðum að verða samkeppnishæf er átt við að launakjör okkar nálgist það sem er lægst í heiminum. Það er framtíðarsýn þeirra sem stjórna fyrir börnin okkar. Allri stéttarbaráttu afa og ömmu verður sturtað niður með tölvuleikjum og sápuóperum nútímans.

Fixið er fjórflokkurinn, það er ekki heimska, það er fíkn í að vera stikkfrí.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur