Mánudagur 30.12.2013 - 23:42 - FB ummæli ()

Laun og verðbólga

Dramatíkin í dönsku þáttunum Dicte er ósvikin en til allra hamingju að mestu skáldskapur. Þegar fylgst er með skrifum verkalýðsforingja á Íslandi er mikil dramatík líka, sérstaklega um nýgerða kjarasamninga ASÍ. Þar sýnist sitt hverjum og mikið rætt um verðbólguna í því sambandi. Henni er kennt um margt og talin jafn slæm og Grýla. Það sem er ennþá verra er að almennum launamönnum á Íslandi er kennt um tilvist verðbólgunnar vegna launa sinna. Ef laun þeirra hækka þá eykst verðbólgan og étur upp launahækkun þeirra. Samkvæmt þessu eru launamenn heimskir a.m.k. ef tillit er tekið til auglýsinga ónefndra aðila.

Hvers vegna er verðbólga? Hvað er verðbólga?

Verðbólga er hækkun á ”vöruverði” milli tveggja tímapunkta. Vöruverðið er oftast ákveðið fyrirfram sem einhver ”karfa” af vörum sem eru viðmiðunin. Þegar þessi karfa hækkar í verði um t.d. 5% þá er verðbólgan sem sagt um 5% prósent.

Ef við gefum okkur að í ákveðnu ríki sé brauðverð það eina sem ákvarðar verðbólgu og þú ert bakari. Þú finnur fyrir auknum þrýstingi að hækka brauðverðið en villt koma í veg fyrir það. Bæði er það að þú vilt ekki lenda í verri samkeppnisaðstöðu með hærra brauðverði og einnig vilt þú ekki bera ábyrgð á því að verðbólgan aukist. Þess vegna sest þú niður og reynir að koma í veg fyrir að hækka brauðverðið. Þú ferð í gegnum kostnaðarliðina. Laun þín og annarra starfsmanna, hráefni, rafmagn, vatn, hitaveitu, húsaleigu, flutninga, skrifstofukostnað, auglýsingar og hagnað sem þú reynir að minnka. Þér tekst að lækka eitthvað af þessu og þeir sem selja þér leggja sitt af mörkum og lækka sinn hluta þangað til að hnífurinn kemur að beini. Síðan er ekki við neitt ráðið og þú verður að hækka brauðverð um 5% og allir aðrir bakarar verða að gera það líka. Þar með eykst  verðbólgan um 5% í þessu ríki.

Laun hafa vissulega áhrif og þess vegna er alltaf verið að tala um að hafa þau í algjöru lágmarki til að koma í veg fyrir hækkun verðbólgunnar.

Langflestir þessir aðilar sem taldir voru upp; bakarinn, launamennirnir, rafmagnsveitan, vatnsveitan, hitaveitan, flutningsfyrirtækin, leigjandinn, auglýsingarstofan og hráefnasalarnir hafa annan kostnað sameiginlegan sem er ekki nokkur vegur að minnka. Það er skuldin og fjármagnskostnaðurinn. Allir skulda þeir lánastofnunum(bönkum). Þar sem skuldin/fjármagnskostnaður eykst stöðugt og ekki fæst neinn afsláttur af henni þá er það skuldin sem er megin orsök verðbólgunnar en ekki launin. Öllum þykir sjálfsagt að launamenn veiti afslátt en alls ekki að bankarnir geri það sem væri mun áhrifaríkara.

Sumir telja að magn peninga í umferð hafi áhrif á verðbólgu. Þar sem sú stærð kom aldrei til álita hjá bakaranum okkar, þar sem sú stærð er ekki í jöfnunni sem ákvarðar brauðverðið sem veldur verðbólgunni, getur það ekki haft áhrif á verðbólguna. Enda gerir það það ekki. Aftur á móti er það skuldin, sem fyrr segir, sem ræður þar mestu um. Þar sem peningar eru búnir til sem skuld þá eykst skuldin alltaf um leið og peningar eru búnir til og þess vegna eykst verðbólgan.

Tvennt er á hreinu, laun almennings þurfa að hækka því peningar búnir til sem skuld valda verðbólgu og að enginn hagfræðingur viðurkennir það að peningar séu búnir til sem skuld sem hækkar verðbólgu.

Kannski ættum við bara að fara horfa aftur á dönsku þættina Dicte…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur