Föstudagur 14.02.2014 - 23:27 - FB ummæli ()

Haftaleysi Viðskiptaráðs

Bankahrunið á Íslandi haustið 2008 olli mjög miklum skaða. Menn rifjuðu upp að ríkisstjórnir í aðdraganda hrunsins höfðu að miklu leyti farið að tilmælum Viðskiptaráðs Íslands. Árið 2006 fékk VÍ tvo menn, Tryggva Þór og Mishkin til að skrifa skýrslu um hversu vel heppnuð hagfræði VÍ væri á Íslandi. Það er því ljóst að VÍ er þungavigtafélag í íslenskri pólitík sem með sínum lobbíisma stuðlaði að því að landið hafnaði í gjaldþroti. Til að bæta gráu ofan á svart sendi VÍ frá sér skýrslu í júní 2008 þar sem þeir töldu hið opinbera of stórt og það ætti að draga sig saman með kerfisbundnum og markvissum hætti næsta áratug til að hleypa einkageiranum að sem framleiddi meiri verðmæti en hið opinbera. Svo kom október 2008 þar sem einkageirinn dró sjálfan sig og ríkið í faðm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins(sem var reyndar aðalheimild júnískýrslu VÍ) og ríkið varð fyrir vikið ennþá stærra.

Það sýnir mikið hugrekki og karakter hjá Viðskiptaráði að þeir séu komnir uppá dekk á nýjan leik. Nýjasti lyfseðillinn hljómar þannig í ræðu formanns á Viðskiptaþingi þann 12 febrúar s.l..

”Það er því afar brýnt að stjórnvöld leggi allt í sölurnar til að greiða fyrir afnámi hafta sem fyrst”.

Að afnema gjaldeyrishöftin getur endað með skelfingu. Íslenska krónan gæti fallið mjög mikið og þar með værum við að endurtaka hrunið frá 2008. Ekki vil ég trúa því að VÍ vilji að við leggjum svo mikið í sölurnar en óneitanlega hræða sporin.

Auk þess er hollt að hlusta á varnaðarorð hagfræðiprófessorsins Ha-Joon Chang um fáránleika frjálshyggjunnar í Silfri Egils. Hann varaði okkur við því að menn myndu koma fram í fyllingu tímans og krefjast þess að við afnæmum gjaldeyrishöftin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur