Laugardagur 10.05.2014 - 18:30 - FB ummæli ()

Valdið til fólksins

Baráttan um brauðið hefur lítið breyst í áranna rás. Atvinnulausir verkamenn reyndu að framfleyta sér með stopulli hafnarvinnu í kreppunni miklu. Litlar sem engar bætur fyrir atvinnumissi, sjúkdóma eða slys. Fátækir og heimilislausir í Reykjavík voru til staðar í den. Þá var horft framhjá þeim og skýringin var að um sjálfskaparvíti væri ræða. Þessi hópur hafði litla sem enga möguleika til að hafa áhrif á ríkjandi valdhafa, lýðræðislegur máttur þeirra var nánast enginn. Kjör þeirra bötnuðu vegna verkalýðsbaráttu áratuganna á eftir og stríðsgróða.
Í dag eru vandamálin svipuð en betur falin. ASÍ hefur hægt um sig og því er ábyrgð sveitafélaga meiri, þau þurfa því að berjast fyrir réttindum þeirra sem minna mega sín. Enn í dag er tekist á um það hvort um sé að ræða sjálfskaparvíti eða hvort það sé samfélagslegur gróði að leysa vandamálin með sameiginlegu átaki.
Dögun er nýtt stjórnmálaafl sem býður núna fram í borgarstjórnarkosningunum. Dögun hefur skýr markmið og drjúgur hluti stefnuskrár Dögunar í Reykjavík snýst um að lyfta fram og gera þá sem minna mega sín sýnilega. Við teljum að þeir eigi að njóta forgangs fram yfir þá sem geta bjargað sér. Auk þess viljum við nota hugsanleg völd okkar til að færa valdið til borgarbúa þannig að þeir stjórni meira beint í sínu nærumhverfi.
Bankar eru einráðir um magn peninga í umferð og skammta þannig pólitíkinni fjármagni til að láta drauma sína rætast. Þess vegna viljum við í Dögun í Reykjavík stofna Borgarbanka. Þannig munum við flytja peningavaldið undir lýðræðislega stjórn þar sem það á heima. Afrekaskrá einkaaðila af stjórn banka er svo hörmuleg að ekki er hægt að toppa það. Gróði Borgarbankans mun styrkja fjárhag borgarinnar og veita auk þess aukna möguleika á lánum með lágum vöxtum til arðbærra framkvæmda.
Kjósum framboð sem vill völdin til almennings og frá fjármálavaldinu.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur