Laugardagur 19.07.2014 - 21:47 - FB ummæli ()

Glæpurinn

Heimsfréttirnar eru ömurlegar þessa dagana. Ísraelar murka lífið úr nágrönnum sínum, jafnt ungum sem öldnum. Í Bagdat og nágrenni sprengja þeir hver annan í loft upp og okkur er trúað fyrir því af heimspressunni að slíkt eigi sér upptök í mismunandi trúarsetningum. Farþegaflugvél hrapaði yfir Úkraínu og Rússum er kennt um það. Reyndar er rannsóknin á slysinu ekki hafin en söngurinn minnir okkur á þegar Afganistan var sprengt í tætlur eftir 11. september, hann bjó reyndar í Pakistan eftir allt saman. Síðan er hungursneyð hér og þar í Afríku, heimsálfa sem brauðfætt gæti allan heiminn. Að lokum, þá rignir svakalega mikið á Íslandi.
Sjálfur liggur maður á strönd í Karlskrona í Svíþjóð og les bókina ”En man som heter Ove”. Á milli þess sem maður bælir niður hlátursrokurnar í kæfandi hitanum heyrir maður í börnunum leika sér frjáls í öllum regnbogans litum og enginn spyr þau hvort þau séu réttdræp hér og nú, vegna einhvers, enda væri slíkt talið glæpur.
Á Íslandi er núna Ríkisstjórn sem vill afhenda fáum útvöldum öll auðæfi þjóðarinnar. Hvað svo sem það kostar. Valdhafar heimsins vilja afhenda fáum útvöldum öll auðæfi, hvað svo sem það kostar. Það er það sem við heyrum um í heimsfréttunum enda er það ekki talið glæpur.
Þarfir sérhvers manns eru einfaldar og skiptir þá ekki máli trú eða litur. Vatn og matur á borðið og að börnin séu hamingjusöm. Ekki þvælast fyrir öðrum og skapa sér og sínum örugga framtíð.
Að auðgast á kostnað annarra hvað svo sem það kostar með öllum tiltækum ráðum; að ná einokun, að tryggja sér völd, að hertaka auðlindir; að koma af stað styrjöldum eða hungursneyð, að skapa smá bankakreppu eða hvað sem er, er ekki glæpur í heimsfréttunum. Það eru bara hörmungar einhverra.
Kannski er það mesti glæpurinn að liggja í leti á strönd og segja ekki það augljósa, hinir útvöldu eru ekki við og þeir eru í minnihluta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur